30.7.2017 11:38

Sjónarhorn fjölmiðla skiptir sköpum

Hvað eftir annað kemur í ljós að afstaða til fjölmiðla líkist að mörgu leyti afstöðu til stjórnmálaflokka eða íþróttafélaga. Menn halda með sínum miðli og er kappsmál að verja hann sé að honum vegið.

Hvað eftir annað kemur í ljós að afstaða til fjölmiðla líkist að mörgu leyti afstöðu til stjórnmálaflokka eða íþróttafélaga. Menn halda með sínum miðli og er kappsmál að verja hann sé að honum vegið. Beitt er alls kyns röksemdum til að hallmæla þeim sem menn eru andvígir og hrósa þeim sem þeir styðja.

Eftir að upplýsinga- og tölvutæknibyltingin gerði kleift að fylgjast með mörgum miðlum í fjölda landa, á mörgum tungumálum og með alls kyns aðferðum eru 15 til 20 miðlar sem ég hef valið og hafa reynst þannig að þeim má treysta. Hver um sig hefur sitt eigið sjónarhorn og oft er forvitnilegt að sjá hvernig þau skarast.

Gagnrýni og árásir Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á fjölmiðla hafa orðið til að skerpa mjög umræður um ágæti miðlanna. 

Í morgun hlustaði ég á brot af þætti á rás 1 þar sem Þorbjörn Broddason, prófessor emeritus, ræddi við Stefán Jón Hafstein um fjölmiðla en Stefán Jón hefur reynslu af fjölmiðlun bæði á ljósvakanum og í prentmiðlum. Hann taldi að stofnun eins og ríkisútvarpið heyrði sögunni til eftir 20 til 30 ár. Verða árin svona mörg?

Í þessu broti þáttarins lýsti Þorbjörn Fox-sjónvarpsstöðinni sem „forheimskandi stöð“. Þetta segir að sjálfsögðu meira um afstöðu Þorbjörns en sjónvarpsstöðina, hún er ekki „forheimskandi“ þótt Þorbirni finnist það af því að hann er ekki sammála sjónarhorni stöðvarinnar.

Stefán Jón fór yfir íslenska fjölmiðla og gaf þeim einkunn. Hann talaði eins og einhver vafi hefði í áranna rás verið um eignarhald á Fréttablaðinu. Svo hefur ekki verið nema á meðan því var haldið leyndu í tæpt ár 2002 til 2003 að Jón Ásgeir Jóhannesson í Bónus hefði keypt það, enn er blaðið í eigu fjölskyldu hans. Stefán Jón taldi að nú flyttu vefmiðlarnir Stundin og Kjarninn efni sem honum líkaði helst sem segir að þeir falla að skoðunum hans vinstra megin við miðju.

Harkalegustu pólitísku átök síðari tíma hafa verið í nágrannalandi okkar Bretlandi. Þar hefur árum saman verið tekist á um aðildina að ESB og nú um hvernig framkvæma beri ákvörðun meirihluta breskra kjósenda um að segja skilið við sambandið.

Charles Moore er breskur rithöfundur, álitsgjafi og blaðamaður. Hann er andvígur aðild Breta að ESB og segir að ekki verði til baka snúið út úr sambandinu þrátt fyrir tilraunir öflugra aðila, þar á meðal fjölmiðla til að spilla fyrir framgangi málsins og draga upp ranga mynd. Hann segir í dálki sínum í The Telegraph í dag:

„Elítum á meginlandinu sem einkum fá upplýsingar frá Bretlandi í gegnum BBCThe Financial Times og The Economist er talin trú um að allt málið [ESB-úrsögnin] sé vondur draumur popúlista. Þær ímynda sér að ráðandi öfl (e. the Establishment) – sem eru jafnvel enn valdameiri í löndum þeirra en okkar – finni leið til að hindra framgang þess. Af þessum sökum hneigjast þær til að beina athyglinni annað en að raunveruleika samningaviðræðnanna.“ 

Þarna lýsir Moore réttilega sjónarhorni fjölmiðla sem sumir fagna en aðrir taka með varúð.

Vissulega leggja alvöru fjölmiðlar áherslu á að draga skýr skil milli skoðana og frétta. Það breytir hins vegar ekki sjónarhorninu sem eins og áður sagði er oft auðveldast að dæma með hliðsjón af málflutningi og skoðunum stuðningsmanna viðkomandi miðils. Samkeppni hugmyndanna tekur á sig ýmsar myndir og oft færist harka í leikinn eins og nú þegar sumir fjölmiðlar í Bandaríkjunum eygja von um að geta þröngvað andstæðingi sínum úr Hvíta húsinu.