1.2.2022 10:14

Sjö ný ráðuneyti af tólf

Þrír forsetaúrskurðir vegna breytinga á skipan ráðuneyta taka gildi. Sjö ný ráðuneyti ný af tólf.

Ríkisráð kom saman til fundar á Bessastöðum 31. janúar 2022. Þar undirritaði forseti Íslands þrjá forsetaúrskurði vegna breytinga á skipan ráðuneyta.

Úrskurðirnir þrír taka gildi í dag, þriðjudaginn 1. febrúar 2022. Um er að ræða forsetaúrskurð um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og forsetaúrskurð um skiptingu starfa ráðherra.

Frá og með 1. febrúar nk. mun Stjórnarráð Íslands skiptast í 12 ráðuneyti:

Forsætisráðuneyti

Dómsmálaráðuneyti

Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti

Fjármála- og efnahagsráðuneyti

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti

Heilbrigðisráðuneyti

Innviðaráðuneyti

Matvælaráðuneyti

Menningar- og viðskiptaráðuneyti

Mennta- og barnamálaráðuneyti

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti

Utanríkisráðuneyti

Þarna koma sjö ný ráðuneyti til sögunnar og er heiti þeirra skáletrað hér fyrir ofan.

Efi_2915-02Ríkiisráðsfundur á Bessastöðum 31. janúar 2022 (mynd: forseti.is).

Rétt er að benda á að þarna er talað um dómsmálaráðuneyti og því er Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra en ekki innanríkisráðherra eins og hann var titlaður eftir stjórnarmyndunina 28. nóvember 2021. Lengst af hefur þetta ráðuneytið heitið dóms- og kirkjumálaráðuneytið en nú eru kirkjumálin komin í hendur þjóðkirkjunnar þótt umsýsla vegna trúmála sé enn í dómsmálaráðuneytinu.

Þá er þarna talað um utanríkisráðuneyti en ekki utanríkis- og þróunarsamvinnuráðuneyti eins og það hefur verið nefnt í nokkur ár. Þetta er skynsamleg einföldun. Raunar er alltaf álitamál hvaða málaflokka ber að tíunda í heiti ráðuneyta.

Fyrir tæpum 50 árum starfaði ég í forsætisráðuneytinu og rúmaðist starfsemi þess þá í Stjórnarráðshúsinu ásamt skrifstofu forseta Íslands. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar og ný verkefni hafa hlaðist á forsætisráðuneytið eins og forsetaúrskurðurinn sýnir. Að þessu sinni flyst frá því málaflokkur sem fellur undir þessa línu í úrskurðinum: Framfylgd laga og reglna um undirbúning stjórnarfrumvarpa. Þetta verkefni er nú á vegum dómsmálaráðuneytisins. Undanfarin ár hefur verið gerð gangskör að því að samræma og bæta allan frágang stjórnarfrumvarpa. Augljós rök eru fyrir slíku samræmingarhlutverki innan forsætisráðuneytisins. Að þangað flytjist mannréttindamál úr dómsmálaráðuneytinu liggur ekki í hlutarins eðli.

Í lok verkefnalista forsætisráðuneytisins stefndur: Sérstök áherslumál á sviði samhæfingar: Réttlát umskipti. Velsældaráherslur. Sjálfbær þróun. Evrópusamvinna.

Þetta eru ekki gegnsæ verkefni nema Evrópusamvinnan en þar skiptir aðildin að EES mestu. Þörf hefur verið á að efla innlenda stoð hennar og tryggja samhæfingu og eftirfylgni. Nauðsyn þess er vonandi áréttuð með þessu eina orði.

Í umræðum fyrir útgáfu forsetaúrskurðarins kom fram að innan Háskóla Íslands og stofnana eins og Landsbókasafns, Árnastofnunar, Þjóðminjasafns og Náttúruminjasafns væri áhugi á að flytjast úr menningarráðuneyti í háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytisins. Úr því varð ekki.