31.5.2024 9:51

Sjálfstæðismenn ráða úrslitum

Enginn þessara frambjóðenda lítur á sig sem frambjóðanda stjórnmálaflokks enda hafa þeir ekki frekar en aðrir frambjóðendur umboð frá nokkrum flokki. 

Enginn frambjóðenda í forsetakjörinu á morgun (1. júní) kemur fram og höfðar beint til kjósenda einstaks stjórnmálaflokks. Frambjóðendurna tólf er erfitt að draga í flokkslega dilka fyrir utan þá sem beinlínis hafa boðið sig fram í nafni flokka.

Ber þá fyrst að nefna Katrínu Jakobsdóttur sem var formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs til afsagnar sinnar vegna forsetaframboðsins. Jón Gnarr sat á sínum tíma sem borgarstjóri þegar hann bauð sig fram fyrir Besta flokkinn. Arnar Þór Jónsson var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á þessu kjörtímabili en afsalaði sér þeirri stöðu með framboði sínu. Baldur Þórhallsson var á sínum tíma varaþingmaður Samfylkingarinnar.

Enginn þessara frambjóðenda lítur á sig sem frambjóðanda stjórnmálaflokks enda hafa þeir ekki frekar en aðrir frambjóðendur umboð frá nokkrum flokki. Hver og einn er á sínum eigin forsendum og segir það sem honum býr í brjósti eins og kjósendur taka afstöðu án tillits til flokksbanda.

Screenshot-2024-05-31-at-09.44.31Þeir sem skipa fyrstu deildina í forsetakosningunum komu saman til umræðna í höfuðstöðvum Morgunblaðsins fimmtudaginn 30. maí og er myndin tekin þar. Á henni eru frá vinstri Jón Gnarr, Katrín Jakobsdóttir, Andrés Magnússon, Stefán Einar Stefánsson, Halla Hrund Logadóttir, Baldur Þórhallsson og Halla Tómasdóttir. Þetta voru vel heppnaðar umræður og skiluðu mun meiru en umræður frambjóðenda á Stöð 2 að kvöldi 30. maí.

Við þessar aðstæður er sérkennilegt svo ekki sé meira sagt að helst er vegið að sjálfstæðismönnum og þeir sakaðir um að svíkja lit lýsi þeir yfir stuðningi við þann frambjóðanda sem hvorki getur né vill leyna hvar hún hefur staðið í stjórnmálaflokki, Katrínu Jakobsdóttur. Eitt er víst: kjósendur vita að þeir kaupa ekki köttinn í sekknum með því að greiða henni atkvæði.

Hvað sem líður skoðunum hennar á einstökum málum þekkir hún eðli og valdmörk forsetaembættisins. Þar vegur heilbrigð dómgreind á hag þjóðarinnar úrslitum um velgengni samhliða virðingu fyrir þeirri metnaðarfullu hófsemd sem er aðalsmerki góðs forseta. Þannig hefur Katrín starfað sem forsætisráðherra hvað sem líður flokkspólitískum skoðunum hennar sem flestir eru blessunarlega ósammála – á þær reynir ekki á Bessastöðum.

Þetta er sagt hér til skýringar á því hvers vegna ég tel marga sjálfstæðismenn styðja Katrínu í kosningunum á morgun. Þeir álíta hana einfaldlega besta kostinn. Vegna þess hvernig vegið er að stuðningsmönnum Katrínar á opinberum vettvangi sannast nú vel hve miklu skiptir að um leynilega kosningu sé að ræða.

Erfitt er að átta sig á því hvers vegna stuðningsmenn Arnars Þórs Jónssonar tala margir eins og hann eigi sérstakt tilkall til stuðnings sjálfstæðismanna. Hann er yst á jaðri flokksins og hefur sótt þaðan gegn forystumönnum flokksins. Skoðun hans er að forseti hafi hömlulaust vald gagnvart alþingi og geti meira að segja gefið ráðherrum fyrirmæli um hvaða lagafrumvörp þeir eigi að flytja. Sé eitthvað í þessari kosningabaráttu núna andstætt klassískri stefnu Sjálfstæðisflokksins er það slík aðför að þingræðinu og þrískiptingu valdsins.

Þess ber að minnast að á morgun veljum við þjóðhöfðingja sem er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum en hefur metnað og vilja til að gæta hags þjóðarinnar í hvívetna. Kosningarnar snúast ekki um að velja einhvern sem boðar tilraunastarfsemi þar sem reynir á hve langt takist að ganga við umbreytingu á þjóðhöfðingjaembættinu með íhlutun í málefni á forræði alþingis.