18.3.2018 9:30

Sjálfstæðismenn halda landsfund tækifæranna

Það er einmitt þetta sem gerir landsfundi sjálfstæðismanna spennandi: að sjá hverjir grípa tækifærið sem þeir gefa.

Ásgeir Pétursson, fyrrv. sýslumaður, sagði mér við upphaf 43. landsfundar Sjálfstæðisflokksins í fyrradag (16. mars) að hann hefði farið með föður sínum Pétri Magnússyni, varaformanni flokksins, í fyrsta sinn á landsfund árið 1943. Ásgeir er fæddur 21. mars 1922 og verður því 96 ára eftir fáeina daga. Þegar Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður árið 2009 hittust þeir Ásgeir og Bjarni í Valhöll og sagði Ásgeir þá að hann hefði tekið í höndina á öllum formönnum Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn var stofnaður 1929 og var Jón Þorláksson fyrsti formaður hans.

Í gær (17. mars) voru tillögur málefnanefnda afgreiddar á landsfundinum. Eins og jafnan áður ræða menn fjölbreytt mál vegna breytingartillagna í fundarsalnum. Er nú starfað eftir strangari fundarsköpum en áður, til dæmis þarf að safna nöfnum 35 manna á tillögu sem flutt er án þess að hún hafi áður verið borin upp í málefnanefnd. Þá gæta fundarstjórar þess að farið sé að ströngum tímamörkum um lengd ræðutíma. Allt er þetta til þess fallið að fundarstörf séu skipuleg og tryggir að eitthvert eitt mál ýti ekki öðrum til hliðar.

Mbl.is birti þessa mynd af landsfundi;  Ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Kristján Þór Júlíusson sitja fyrir svörum.

Nefndir fundarins eru átta og taka mið af fjölda og nöfnum nefnda á alþingi. Draga má í efa að þetta sé heppilegt fyrirkomulag. Líklegt er að umræður yrðu skarpari og markvissari ef sérstakar nefndir helgaðar atvinnuvegum störfuðu á fundinum. Fjallað væri sérstaklega um menntamál og menningarmál auk löggæslumála í stað þess að hafa þetta þrennt undir sama hatti.

Í gær kynntu frambjóðendur til þriggja æðstu embætta flokksins sig fyrir fundarmönnum. Tveir bjóða sig fram til endurkjörs Bjarni Benediktsson formaður og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari. Ekki birtust nýir frambjóðendur til þessara embætta undir þessum lið fundarins en þegar kosið er fá fundarmenn auðan kjörseðil og geta skrifað þar hvaða nafn sem þeir kjósa.

Eftir andlát Ólafar Nordal er nú komið að því að kjósa varaformann í hennar stað. Einn bauð sig fram til varaformanns í gær, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra og fyrrv. aðstoðarmaður Ólafar.

Í upphafi ræðu sinnar sagði Þórdís Kolbrún:

„Við þurfum að halda áfram að bæta lífskjörin. En það verður ekki gert með kollsteypum. Það verður aðeins gert með því að skapa meiri verðmæti.

Ekki með því að skattleggja atvinnulífið í drep. Eins og sumir sem kenna sig við frjálslyndi vilja gera.

Og ekki með því að hækka skatta hundrað og tólf sinnum. Eins og síðasta vinstristjórn gerði.

Munum þessa tölu! 112, fjöldi skattahækkana síðustu vinstristjórnar og símanúmer Neyðarlínunnar.

Gegn þessum tilburðum stendur aðeins einn flokkur með trúverðugum hætti, og það er Sjálfstæðisflokkurinn.“

Sjálfri sér lýsti Þórdís Kolbrún á þennan hátt:

„Margir leggja nótt við dag til að koma þeirri ímynd á framfæri, að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur þröngrar klíku.

Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref, fyrir rúmum áratug síðan, heyrði ég úr ýmsum áttum að Sjálfstæðisflokkurinn væri blindgata fyrir unga konu eins og mig: landsbyggðartúttu úr Fjölbrautaskóla Vesturlands, dóttur sjúkraliða og iðnaðarmanns, venjulegs fólks, með lítið bakland og tengsl innan flokksins.

Ég ákvað nú samt að prófa þessa svokölluðu “blindgötu” …og hef nú gengið eftir henni alla leið upp í þessa pontu.

Svo sannarlega hef ég fengið tækifæri, frá mörgu stórkostlegu Sjálfstæðisfólki. Sem kosningastjóri í Norðvestur, framkvæmdastjóri þingflokksins, aðstoðarmaður ráðherra, þingmaður og nú ráðherra í tveimur ríkisstjórnum. Ég er þakklát fyrir þessi tækifæri.

Og svo sannarlega hef ég sóst eftir þessum tækifærum. Enda er ég alin upp við að fátt sé utan seilingar ef maður leggur sig eftir því og grípur tækifærin. [...]

Ég hef alltaf trúað því - og er alin upp við það, að fyrsta val sé að standa á eigin fótum, annað val sé að finna aðra leið til að standa á eigin fótum, og þriðja val sé að reyna til þrautar að standa á eigin fótum.

Gott samfélag er að mínu mati þar sem fólk hefur svigrúm og tækifæri til að vera sinnar eigin gæfu smiðir. Tækfæri, er lykilorð. Íslendingar eru fámenn þjóð, við verðum því að hámarka nýtingu hæfileika okkar allra.“

Undir lok ræðu sinnar sagði Þórdís Kolbrún:

„Við Sjálfstæðismenn eigum erindi við framtíðina, af því að við skiljum hvers hún krefst af okkur.

Hún krefst þess að einstaklingsfrelsi og athafnafrelsi blómstri sem aldrei fyrr, í allra þágu.

Því að þannig nær venjulegt fólk óvenjulegum árangri.

Og má ekki einmitt segja að þetta sé saga okkar Íslendinga í stuttu máli? - Venjulegt fólk sem nær óvenjulegum árangri. Hvers vegna? Af því að tækifærin eru og hafa verið til staðar.

Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur tækifæra.

Tækifæra hins venjulega manns.“

Það er einmitt þetta sem gerir landsfundi sjálfstæðismanna spennandi: að sjá hverjir grípa tækifærið sem þeir gefa, til að kynna málefni eða sækjast eftir trausti þess mikla fjölda sem sækir fundinn.

Fjölmiðlar gefa seint rétta mynd af landsfundum sjálfstæðismanna. Fjölmiðlamenn án reynslu af að sitja þá leggja fundina að jöfnu við fundi annarra íslenskra stjórnmálaflokka – sú mælistika er einfaldlega alltof lítil.