1.12.2022 9:28

Sjálfstæði í síbreytilegum heimi

Hart verið deilt um öll stór skref sem tekin hafa verið til að tryggja öryggi þjóðarinnar og til að laga efnahagslíf hennar að innri markaði Evrópu.

Einkennilegt er að lesa og heyra 1. desember þegar látið er eins og einhver keppni sé milli þess dags og fullveldisins frá 1918 og sjálfstæðisins og stofnunar lýðveldisins 17. júní árið 1944. Hvort heldur litið er 104 ár aftur í tímann eða 78 ár er um merka áfanga í sögu þjóðarinnar að ræða. Þeir stjórnmálaatburðir sem tengjast þessum dögum eru til marks um aukið vald þjóðarinnar á eigin málum, vald sem síðan hefur meðal annars verið notað til að tengjast alþjóðasamvinnu og taka þátt í henni á íslenskum forsendum.

Strax á fyrstu árum lýðveldisins þegar Íslendingar fengu stjórn utanríkismála í eigin hendur stóðu íslensk stjórnvöld frammi fyrir ákvörðunum sem mörkuðu þjóðinni síðan sess í alþjóðasamstarfi.

Í utanríkismálum og ákvörðunum um þau víkur allt til hliðar þegar öryggishagsmunir þjóða eru annars vegar. Við lifum slíka tíma núna, enginn veit enn hvenær Rússar ætla að draga innrásarher sinn frá Úkraínu.

IMG_6053_1669886891207Nú búa ríflega 20.000 manns með pólskt ríkisfang á Íslandi, fjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara í landinu. Dvöl þeirra hér og mikið framlag til íslenska þjóðarbúsins má rekja til aðildar Íslands að samningnum um evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) sem gerður var fyrir 30 árum.

Það er löngu tímabært að stíga skrefið sem tekið verður í dag þegar opnað verður íslenskt sendiráð í Póllandi en hér hafa pólsk stjórnvöld haldið úti sendiráði frá 2013.

Pólverjar hlutu sjálfstæði og fullveldi undir árslok 1918 eins og við. Saga þeirra síðan hefur hins vegar verið harkalegri og grimmilegri en okkar eins og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra minnist á í dag þegar hún segir í Morgunblaðinu:

„Íslendingar hafa blessunarlega aldrei þurft að horfast í augu við stríðshörmungar á borð við þær sem lita sögu Póllands en hin sterka sjálfstæðisþrá pólsku þjóðarinnar er tilfinning sem hreyfir við sambærilegum strengjum í íslenskum hjörtum.“

Hart hefur verið deilt um öll stór skref til að tryggja öryggi þjóðarinnar og til að laga efnahagslíf hennar að innri markaði Evrópu, fyrst með aðildinni að EFTA árið 1970 og síðan að EES árið 1994.

Það var ekki fyrr en vorið 2007 sem full sátt náðist um EES-aðildina meðal stjórnmálaflokkanna en þá mynduðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og VG EES-samstöðu í nefnd forsætisráðherra um Evrópumál á sama tíma og fulltrúar Framsóknarflokks annars vegar og Samfylkingar hins vegar lýstu stuðningi við EES-aðildina en gældu við aðild að Evrópusambandinu.

Ömurlega illa undirbúið skref til aðildar að ESB var stigið með umsókn sem samþykkt var af alþingi í júlí 2009 að tillögu ríkisstjórnar VG og Samfylkingar. Í ljós kom að hvorki íslenska stjórn- né stjórnmálakerfið hafði burði til að leiða málið til lykta og hrundi aðildarferlið saman fyrir kosningar vorið 2013 þar sem stjórnarflokkarnir voru niðurlægðir af kjósendum.

Íslandssagan verður skrifuð áfram á þeim grunni sem við þekkjum á líðandi stund. Mestu skiptir að þjóðin glati ekki innri styrk og sjálfstæðisvilja.