14.2.2024 9:29

Sir Keir og gyðingahatrið

Sir Keir tekur slaginn við gyðingahatara í breska Verkamannaflokknum til að verða stjórnhæfur. Hvað gerir Kristrún Frostadóttir innan Samfylkingarinnar?

Sir Keir Starmer hefur verið á svipaðri vegferð og Kristrún Frostadóttir ákvað að fara með Samfylkinguna í fyrra, að gera breska Verkamannaflokkinn stjórnhæfan í augum kjósenda.

Gengið verður til þingkosninga í Bretlandi á árinu og verður Sir Keir vandi á höndum við val á frambjóðendum.

Nú í vikunni hefur breski flokksformaðurinn orðið að ýta tveimur frambjóðendum til hliðar til að losa Verkamannaflokkinn undan gagnrýni fyrir að þar sé gyðingahatur ráðandi.

Sir Keir ýtti Graham Jones til hliðar. Hann ætlaði að bjóða sig fram í Hydburn-kjördæmi þar sem hann gegndi þingmennsku til ársins 2019. Fréttir bárust um að Jones hefði talað um „f---ing Israel“ á opinberum fundi og að „fangelsa“ ætti þá Breta sem gerðust sjálfboðaliðar í Ísraelsher.

Þegar Sir Keir neyddist til að taka þessa ákvörðun var tæpur sólarhringur liðinn frá því hann varð að hverfa frá stuðningi við Azhar Ali, frambjóðanda flokksins í aukakosningu í Rochdale-kjördæmi, síðar í þessum mánuði. Ali hafði gengið fram af fundarmönnum með árásum á gyðinga á sama fundi og Graham Jones lét ummæli sín falla.

TELEMMGLPICT000366345411_17078613046740_trans_NvBQzQNjv4BqXw_q8sP29F1hRGB6m7SSNYh-1OKnoApjyaprnWnv9twSir Keir Starmer, formaður breska Verkamannaflokksins.

Þriðjudaginn 13. febrúar áréttaði Sir Keir að flokkur hans hefði breyst og hét því að refsa öllum frambjóðendum sem sættu ásökunum um gyðingahatur, allar ásakanir í þá veru yrðu rannsakaðar til hlítar.

The Telegraph nefnir miðvikudaginn 14. febrúar fimm menn úr forystusveit Verkamannaflokksins sem Sir Keir ætti að rannsaka fylgdi hugur máli hans.

Hér hefur áður verið bent á að vegna gyðingahaturs innan vinstri flokka gætu forystumenn þeirra lent í verulegum ógöngum þegar til átaka kæmi sem snerta Ísraela og Palestínumenn. Fer breski Verkamannaflokkurinn ekki varhluta af því um þessar mundir.

Hér á landi er meiri heift í gagnrýni í garð Ísraels og gyðinga en í flestum ef ekki öllum Evrópulöndum. Þetta birtist meðal annars í stórundarlegum umræðum um þátttöku í Eurovision.

Afstaða ríkisútvarpsins sem stendur fyrir keppninni einkennist af hræsni þess sem vill þvo hendur sínar af „ódæði“ sem er á hans ábyrgð. Helstu Eurovisionistar stofnunarinnar nota þætti sem þeir stjórna til að hampa þeim sem sýna Ísrael andúð í fjölmiðlum. Vona þeir að það opni þeim leið til Malmø?

Hér er efnt til söngvakeppni vegna Eurovison og þó ekki! Menningarráðherrann vísar á utanríkisráðherrann og breytir keppninni í milliríkjamál – gagnvart hverjum? Líklega Ísrael til að gyðingaandúðin fái þannig útrás.

Nú í dag birtist grein í Morgunblaðinu eftir forstjóra Rapyd, íslensks kortafyrirtækis með um 180 manns í vinnu. Forstjórinn mótmælir alröngum fullyrðingum um að Rapyd starfi á landránsbyggðum Ísraels á Vesturbakkanum og styðji hernað Ísraelshers á Gaza.

Sir Keir tekur slaginn við gyðingahatara í breska Verkamannaflokknum til að verða stjórnhæfur. Hvað gerir Kristrún Frostadóttir innan Samfylkingarinnar?