31.8.2023 10:08

Sir John Eliot dregur sig í hlé

Það er stórt skref fyrir Sir John Eliot að sýna þessa auðmýkt og viðurkenna að hann þurfi að huga að eigin geðheilsu.

Einn af kunnustu hljómsveitarstjórum samtímans, Sir John Eliot Gardiner (80 ára), tilkynnti í dag (31. ágúst) að hann hefði fallið frá að stjórna á boðuðum tónleikum í dagbók sinni til að geta einbeitt sér að eigin geðheilsu eftir að hann sló söngvara í kór sínum í andlitið baksviðs eftir tónleika í La Côte-Saint-André, skammt frá Grenoble í Frakklandi þriðjudaginn 22. ágúst.

William Thomas (29 ára) er bassasöngvari í Monteverdi-kórnum sem Sir John Eliot stofnaði á sínum tíma. Flutti kórinn og hljómsveit óperuna Les Troyens (Trójubúar) eftir Hector Berlioz. Reiddist Sir John Eliot þegar söngvarinn gekk á röngum stað niður af sviðinu eftir fyrsta hluta óperunnar og rakst á stjórnandann.

Segja heimildarmenn að stjórnandinn hafi kallað söngvarann „syfjulegan skúrk“ áður en hann sló hann í andlitið.

Hvarf Sir John Eliot af staðnum og tók aðstoðarmaður hans, Dinis Sousa, við stjórninni. Þá var sagt að 39 stiga hiti og ný lyf hefðu haft þessi áhrif á Sir John Eliot og hann mundi ekki stjórna lokatónleikum Proms-hátíðarinnar í London sunnudaginn 3. september.

TELEMMGLPICT000346567846_16934702337640_trans_NvBQzQNjv4BqtGQB12KHxxQCrwnTZkX0nwgWqwm85JEWpGVhFb46TTgSir John Eliot Gardiner.

Nú rúmri viku síðar dregur heimsfrægi hljómsveitarstjórinn sig í hlé og segist ætla að leita sér aðstoðar hjá sérfræðingum og hann sjái að það hafi hann þurft að gera fyrr:

„Ég vil biðja samstarfsfólk sem telur að ég hafi komið illa fram við það og alla sem finnst ég hafa brugðist sér með ákvörðun minni afsökunar á að ég ætla að fá tóm til að huga að eigin málum. Mig tekur sárt að hafa valdið svo mikilli ógæfu og er staðráðinn í að læra af mistökum mínum.“

Þeir sem hafa séð Sir John Eliot á hljómsveitarpallinum og þekkja hve vandur hann er að virðingu sinni og kröfuharður við sjálfan sig og aðra, fyrir utan að hann er talinn í vinahópi Karls konungs III., átta sig á hve stórt skref hann stígur með því að sýna þessa auðmýkt og viðurkenna að hann þurfi að huga að eigin geðheilsu.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem stórt skaplyndi hans verður að opinberu umræðuefni. Rifjað er upp að árið 2010 hafi hann sagt við The Financial Times: „Ég get verið óþolinmóður, ég get verið viðskotaillur, ég hef ekki alltaf verið góðviljaður. Á yngri árum gerði ég mörg mistök.“

Sagt er að hann hafi ekki fengið stöðu tónlistarstjóra við Opera North í Bretlandi vegna þess að hljómsveitin neitaði að vinna með honum.

Það er víðar stormasamt í óperu- og tónlistarheiminum en hér á landi. Nú virðist stefna í deilur um hvort íslenska ríkið eigi að taka óperurekstur alfarið á sínar herðar eða halda áfram að standa við bakið á sjálfstæðri óperustarfsemi í höndum þeirra sem knýja hana áfram af sókndjörfum áhuga eins og verið hefur um árabil.

Af áralangri reynslu skal mælt með síðari kostinum.