8.10.2019 9:56

Silfruköfun og heimsminjaskrá UNESCO

Þeir sem fara um þjóðgarðinn og sjá umsvif og mannvirki að baki Þingvallabæjarins (þó í skjóli fyrir þá sem í bænum eru) hljóta að reka upp stór augu.

Árið 1994 ákvað UNESCO að skrá verndarsvæði fyrir steppuantilópur í Oman á heimsminjaskrá sína. Svæðið var hins vegar tekið af skránni 28. júní 2007 eftir að stjórnvöld í Oman höfðu ákveðið að skerða svæðið um 90% og steppuantilópunum hafði fækkað úr 450 árið 1996 í 65 vegna veiðiþjófnaðar og skorts á kjörlendi.

SilfraKafað í Silfru (úr kynningarbæklingi).

Árið 2004, sama ár og Þingvellir voru skráðir á heimsminjaskrá UNESCO, hlaut 20 km langi Elbu-dalurinn við Dresden einnig skráningu. Heimsminjanefnd UNESCO samþykkti hins vegar 25. júní 2009 að afskrá dalinn vegna þess að honum yrði skipt í tvennt með Waldschlösschen-brúnni sem hafði verið í smíðum frá árinu 2007. Gengið var til atkvæðagreiðslu um smíði brúarinnar árið 2005 án þess að kjósendum væri greint frá því að UNESCO-skráningin væri í húfi. Árið 2006 var dalurinn settur á válista UNESCO fram til ársins 2008 þegar Dresden-yfirvöldum var veittur eins árs umþóttunartími. Þegar nefndin kom saman í Sevilla árið 2009 samþykkti hún með 14 atkvæðum gegn 5 að afskrá dalinn. Brúin var opnuð fyrir umferð árið 2013 og var meirihluti borgarbúa þeirrar skoðunar að hún skipti þá meira máli en heimsminjaskráningin.

480px-Waldschlosschenbrucke_-_Dresden-_Germany_-_DSC09192Waldschlösschen-brúin við Dresden.

Þetta eru þau tvö dæmi sem nefnd eru þegar leitað er upplýsinga á netinu um skráningu af heimsminjaskránni. Tilefni þeirrar athugunar er frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag (8. október). Þar segir frá því að Jónas Haraldsson lögfræðingur hafi sent kvörtunarbréf til heimsminjanefndar UNESCO vegna umfangsmikillar starfsemi köfunarfyrirtækja við Silfru innan þjóðgarðsins á Þingvöllum. Salerni, stálpallur, bílafloti og alls kyns búnaður skapi sjónmengun fyrir aðra gesti þjóðgarðsins og álag á lífríki Silfru sem hafi látið stórlega á sjá.

Í frétt blaðsins segir að Mechtild Rössler, forstjóri Heimsminjaskrifstofunnar, hafi þakkað Jónasi ábendingu hans og hún hafi í september 2019 sent íslenskum stjórnvöldum bréf með óskum um skýringar.

„Mig langar að biðja þau yfirvöld sem ábyrg eru í málinu að útvega Heimsminjaskrifstofunni upplýsingar um þetta mál við fyrsta tækifæri,“ segir í bréfi Rössler sem lagt var fram á fundi Þingvallanefndar 25. september síðastliðinn. Þar var ákveðið að fela Einari Á. Sæmundsen þjóðgarðsverði að vinna drög að svörum til Heimsminjaskrifstofunnar, segir Fréttablaðið.

Þeir sem fara um þjóðgarðinn og sjá umsvif og mannvirki að baki Þingvallabæjarins (þó í skjóli fyrir þá sem í bænum eru) hljóta að reka upp stór augu. Af öllu umstanginu er augljóst að mikil ásókn er í Silfru. Hvort þessi starfsemi og það sem henni fylgir brjóti í bága við heimsminjaskráninguna kemur í ljós í ferlinu sem nú er hafið.

Deilan getur orðið löng og ströng eins og reyndist vegna Elbu-dalsins við Dresden. Líklegra er þó að sáttaleið finnist. Bókunaraðferðin sem beitt er vegna heimsókna í Silfru hefur nokkra sérstöðu hér. Þarna er um auðlindastýringu að ræða sem útfæra má með strangari skilyrðum en nú gilda vilji menn draga úr ágangi fólks og fylgihluta á þessum einstæða stað.