27.5.2018 10:32

Sigur í Reykjavík – blátt yfir Rangárþingi

Ekki verður skilið við úrslitin að þessu sinni án þess að fagna góðu gengi okkar sjálfstæðismanna í Rangárþingi.

Img_6117Horft til Eyjafjallajökuls.

Pólska stjórnarskrárdagsins var minnst mánudaginn 14. maí með hátíðlegri móttöku á vegum pólska sendiráðsins í Reykjavík (sem er til húsa í gamla borgarstjórnarsalnum við Skúlatún). Meðal gesta þar var Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík. Skoðanakannanir sýndu að ekki var að vísan að róa fyrir Eyþór og lista hans. Fréttablaðið birti til dæmis könnun mánudaginn 7. maí sem sýndi aðeins 22,4% fylgi sjálfstæðismanna og 30,5% fylgi Samfylkingarinnar. Á grundvelli hennar var fullyrt að meirihluti Samfylkingar, VG og Pírata mundi halda velli í kosnigunum 26. maí.

Þetta var í eina skiptið sem við Eyþór hittumst í kosningabaráttunni og hafði ég á orði að það væri greinilega þungt undir fæti, markmiðið um að verða stærsti borgarstjórnarflokkurinn mundi líklega ekki rætast. „Blessaður vertu,“ sagði Eyþór. „Það er ástæðulaust að taka þessu alvarlega. Við náum yfir 30% og verðum stærsti flokkurinn.“ Næstu daga leituðu þessi orð Eyþórs oft á hugann, til dæmis miðvikudaginn 23. maí þegar Morgunblaðið birti könnun sem sýndi 26,3% fylgi sjálfstæðismanna og 31,8% fylgi Samfylkingarinnar. Var þá ólíklegt að fullyrðing Eyþórs um úrslitin 26. maí stæðist. Heldur þokaði þó í þá átt föstudaginn 25. maí þegar ríkisútvarpið birti niðurstöður í Gallup-könnun sem sýndi Sjálfstæðisflokkinn stærstan með 28,3% fylgi og Samfylkinguna með 26%. Úrslitin urðu svo þau að Sjálfstæðisflokkurinn varð stærstur í borginni með 30,8% (25,7% 2014) og Samfylkingin fékk 25,9% (31,9% 2014).

Eyþór reyndist sannspár og er vel að sigrinum kominn. Sé tekið mið af könnunum vann D-listinn ekki aðeins kosningasigur í Reykjavík heldur sigraði einnig í kosningabaráttunni sem snerist af hálfu Samfylkingarinnar aðeins um Dag B. Eggertsson borgarstjóra. Hann varð undir og fráleitt af hans hálfu að láta eins og úrslitin sýni að kjósendur vilji hann áfram í forystu.

Úrslit kosninganna almennt í landinu eru fyrst og fremst áfall fyrir Samfylkinguna. Eftir að hún tapaði forystunni í Reykjavík hefur hún hvergi marktæka fótfestu í sveitarstjórnum. Hvað sem líður úrslitunum fyrir VG hefur sá flokkur alla burði til að ná vopnum sínum enda er hann í forystu ríkisstjórnar. Að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Samfylkingin, fái þessa útreið er aðeins til að styrkja ríkisstjórnina.

Ekki verður skilið við úrslitin að þessu sinni án þess að fagna góðu gengi okkar sjálfstæðismanna í Rangárþingi. Þetta fornfræga hérað skiptist nú í tvö sveitarfélög, Rangarárþing ytra, þar sem byggð er þéttust á Hellu, og Rangárþing eystra, þar sem byggð er þéttust á Hvolsvelli.

Sjálfstæðismenn voru með stjórn Rangárþings ytra í sínum höndum fyrir kosningar, höfðu hreinan meirihluta og fengu nú 62,19% atkvæða, juku fylgi sitt um 8,25% á kostnað Á-listans sem fékk 37,81%.

Hér í mínu sveitarfélagi, Rangárþingi eystra, hefur Ísólfur Gylfi Pálmason verið sveitarstjóri framsóknarmanna. Hann var ekki í framboði núna og töpuðu framsóknarmenn einum manni og 10,3% atkvæða, fengu 36,37%. Sjálfstæðismenn bættu við sig manni fengu þrjá og 46,10% atkvæða, fylgisaukningin var 12,2%, hvorki meira né minna. Anton Kári Halldórsson byggingarfulltrúi er sveitarstjóraefni okkar. Til að mynda meirihluta þurfa sjálfstæðismenn stuðning fulltrúa lista óháðra sem fékk 17,5% atkvæða.

Það er því blátt yfir Rangárþingi þótt mikið hafi rignt á kjördag og geri enn.