Sigmundur Ernir breytir ekki sögunni
Kenning ritstjórans fyrrverandi um að stjórnmálamenn vilji „veika fjölmiðla“ er sett í fyrirsögn samtalsins. Þetta er léleg afsökun fyrir niðurlagningu Fréttablaðsins undir ritstjórn Sigmundar Ernis.
Nú er kynnt til sögunnar hraðsoðin bók eftir Sigmund Erni Rúnarsson, síðasta ritstjóra Fréttablaðsins sem lagði upp laupana 31. mars 2023. Í Morgunblaðinu segir í dag að í bókinni segi höfundurinn frá ríflega 40 ára fjölmiðlaferli sínum.
Í lok samtalsins segir Sigmundur Ernir að enginn þori „í feita fílinn [les: ríkisútvarpið?] og því síður í stærri jötna utan af víðum völlum alheimsins sem skófla efnisveitum sínum yfir landslýð án þess að greiða nokkra skatta eða skyldur til jafns við heimaríka fjölmiðla á fámennasta skeri Evrópu. Því það er ekki bara vitlaust gefið. Ef allt er talið. Það er kolvitlaust gefið. Þess vegna er það líklega rétt – og það er ef til vill niðurstaðan af þessari löngu sögu misskiptingar í fjölmiðlasögu landsmanna frá 1986 – að stjórnmálamenn vilja hafa veika fjölmiðla. Og draga úr þeim þrótt.“
Kenning ritstjórans fyrrverandi um að stjórnmálamenn vilji „veika fjölmiðla“ er sett í fyrirsögn samtalsins. Þetta er léleg afsökun fyrir niðurlagningu Fréttablaðsins undir ritstjórn Sigmundar Ernis.
Hvers vegna skyldu stjórnmálamenn hér vilja „veika fjölmiðla“? Telur Sigmundur Ernir að þess vegna sveiflist Lilja D. Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra í afstöðu sinni til þess hvort hún vill ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði eða ekki? Er það vegna ásetnings um að veikja innlenda fjölmiðla sem ekki liggur fyrir frumvarp frá ráðherranum um skatta á alþjóðlegu „jötnanna“ sem sópa til sín auglýsingum fyrir íslenska neytendur?
Þessi árátta að kenna stjórnmálamönnum um öll skipbrot fyrirtækja skýrir ekki stöðuna á fjölmiðlamarkaði. Allir sem nota fjölmiðla vegna frétta og umræðna eða til auglýsinga vilja að þeir standist ákveðnar kröfur. Að halda útgáfu Fréttablaðsins áfram þjónaði ekki neinum tilgangi. Blaðið gekk sér einfaldlega til húðar á 20 árum. Í ritstjóratíð Sigmundar Ernis sáu fjárfestar í blaðinu engan tilgang í að halda útgáfu þess áfram. Það átti ekki lengur neitt erindi við lesendur. Því réð hvorki „feiti fíllinn“ né „stóru jötnarnir“.
Lokaeigendur Fréttablaðsins keyptu það til að styðja við bakið á Viðreisn og aðild Íslands að Evrópusambandinu. Margir leiðarar Sigmundar Ernis endurspegluðu þetta viðhorf og þótt hann tæki stórt upp í sig í hneykslan sinni yfir að enginn tæki mark á honum hélt hann áfram að boða ESB-erindið þar til yfir lauk.
Sigmundur Ernir sat á alþingi fyrir Samfylkinguna árin 2009 til 2013 og studdi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra þegar hún stofnaði til ófriðar í samfélaginu vegna stjórnarskrármálsins, ESB-aðildarinnar og ICESAVE-samningsins. Markmiðið var að gera út af við Sjálfstæðisflokkinn í átökunum eftir hrun. Úr því að það mistókst á þingi vann Sigmundur Ernir áfram að sama markmiði sem fjölmiðlamaður. Leiðarar hans í Fréttablaðinu staðfesta það.
Stefna Fréttablaðsins og skrif Sigmundar Ernis um evru og ESB urðu enn meiri tímaskekkja eftir Samfylkingin afmáði þessi mál úr stefnu sinni, að minnsta kosti opinberlega. Nýr formaður, Kristrún Frostadóttir, forðaðist þessi mál. Fréttablaðið, veikur fjölmiðill, varð víti til að varast að mati hennar. Umskrifun Sigmundar Ernis á sögunni breytir henni ekki.