31.3.2019 10:06

Sigmundur Davíð og sæstrengurinn

Skuldbinding á borð við þá sem Sigmundur Davíð gaf David Cameron verður þá ekki lengur einkamál forsætisráðherra.

Flokksstjórn Miðflokksins kom saman laugardaginn 30. mars og þar flutti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flokksformaður ræðu. Ætla hefði mátt að formaðurinn gerði flokksmönnum sínum grein fyrir gangi þessa Klausturmálsins og stöðu sinni og félaga sinna í flokksforystunni meðal annars í ljósi þess að meirihluti siðanefndar alþingis telur framgöngu fundarmannanna á Klaustri falla undir verksvið sitt.

Í stað þess að afmá þennan skugga af Miðflokknum kaus Sigmundur Davíð að ræða mál sem snertir ekkert íslenska hagsmuni, það er hvernig ESB hagar orkumálum sínum og hvert er hlutverk ACER, Samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði ESB. Fann flokksformaðurinn þessari stefnu ESB allt til foráttu og líkti hann hlutverki ACER á þann veg að hún minnti á „gamla lénskerfi Evrópu“. Dró hann upp þá mynd að Ísland yrði hluti af þessu kerfi.

Pye4m4dzForsætisráðherrarnir David Cameron og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræða um sæstreng í Alþingishúsinu 28. október 2015 - mynd forsætisráðuneytið.

Allt var þetta liður í andróðri Sigmundar Davíðs gegn 3ja orkupakkanum. Eins og fram hefur komið hafa íslensk stjórnvöld haft þennan orkupakka á dagskrá sinni frá 2010. Markverðustu skrefin voru stigin á árunum 2014 til 2016 þegar Gunnar Bragi Sveinsson, annar varaformanna Miðflokksins, var utanríkisráðherra. Þá var lagður grunnur að því að gera málið að EES-máli sem síðan gerðist 2017. Er það verkefni núverandi stjórnvalda að vinna úr þessum ákvörðunum frá því þegar Sigmundur Davíð var forsætisráðherra.

David Cameron, þáv. forsætisráðherra Breta, var hér í heimsókn 28. október 2015 og í tilkynningu eftir fund hans með Sigmundi Davíð sagði:

„Ráðherrarnir ræddu einnig samstarf í orkumálum og var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Sigmundur Davíð sagðist hafa fyrirvara um lagningu sæstrengs. Forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni væri að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki. Eðlilegt er þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér. Miðað er við að umræddur vinnuhópur skili niðurstöðu innan sex mánaða.“

Þetta var á þeim tíma þegar aðild að 3ja orkupakkanum var til meðferðar hjá ríkisstjórn Sigmundar Davíðs. Þá lutu fyrirvarar hans vegna sæstrengs ekki að ógninni frá ACER heldur verðlagi á orku hér á landi sem ráðherrann taldi eðlilega á valdi Íslendinga að ákveða. Nú er eins og hann haldi að einhver verðlagsnefnd undir merkjum ACER ákveði raforkuverð til almennra neytenda í ESB-löndunum.

Stefna núverandi ríkisstjórnar gagnvart sæstreng er mun markvissari en stefna Sigmundar Davíðs. Hún ætlar að leggja fyrir alþingi frumvarp um að sæstrengur fyrir raforku komi ekki til álita nema alþingi samþykki það með sérstökum lögum. Skuldbinding á borð við þá sem Sigmundur Davíð gaf David Cameron verður þá ekki lengur einkamál forsætisráðherra.