9.8.2023 9:56

Siglt fyrir loftslagið

Af umræðum um orkuskipti hér og kolefnishlutleysi Íslands má ráða að enn þarf að gera verulegt átak til að settu marki verði náð.

Af umræðum hér um ákvarðanir Evrópuþjóða um aðgerðir til að sporna gegn útblæstri og framkvæma eigin stefnu í loftslagsmálum mætti ætla að forráðamenn Eimskips hefðu ekki áttað sig á hvert stefndi.

Nú verður allt í einu fjölmiðlahvellur vegna þess að við blasir að hér verða innleiddar nýjar reglur Evrópusambandsins um mengunarkvóta í sjóflutningum. Hingað til hefur skipaflotinn ekkert greitt fyrir mengun. Nú er gert ráð fyrir að skipafélög kaupi losunarkvóta vegna mengunar. Reglurnar eru hluti af viðamikilli áætlun ESB um að ná kolefnishlutleysi um miðja þessa öld.

Bifreiðaeigendur hafa árum saman búið við mengunarskatta til að minnka útblástur. Þeim er ljóst að það kostar að ná umsömdum markmiðum.

Emissions-ship.jpg

Með áætlun ESB eru Evrópuþjóðir að móta leið til að standa við alþjóðlegu skuldbindinguna sem felst í Parísarsamkomulaginu frá 2015. Síðar, árið 2019, samþykktu EES/EFTA-ríkin, Noregur, Ísland og Liechtenstein, að eiga samleið með ESB í viðleitninni til að standa við Parísar-skuldbindingarnar og var ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, falið að leggja mat á hvort ríkin stæðu við það sem þau hefðu lofað.

Af umræðum um orkuskipti hér og kolefnishlutleysi Íslands má ráða að enn þarf að gera verulegt átak til að settu marki verði náð. Í vegi fyrir því stendur meðal annars óvissa um virkjanir á endurnýjanlegri orku því að reglu-frumskógurinn sem brjótast þarf í gegnum þar er svo þykkur að ekki sést til sólar.

Hitt er síðan sérstakt viðfangsefni í umræðum hér að nokkur hópur, stundum hávær, viðurkennir einfaldlega ekki að íslensk stjórnvöld hafi skuldbundið sig á þann hátt sem þau gerðu í París 2015.

Einkennilegast er að í hópi afneitara samkomulagsins sé Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem var forsætisráðherra árið 2015 og gerði sér ferð til Parísar til að fagna samkomulaginu og leggja því lið.

Hann skrifaði síðan grein í breska tímaritið The Spectator í nóvember 2021 þar sem hann sagðist hafa verið svo upptekinn í París 2015 af fjármálaákvörðunum í eftirleik bankahrunsins 2008 að hann hafi ekki áttað sig á efni Parísarsamkomulagsins. Hann sagði í greininni:

„Ég veit að það er ekki fullkomin afsökun, ég geri mér grein fyrir að ég hefði átt að efast um hóphugsunina. Hins vegar var búið að ákveða allt áður en ég kom, þið vitið hvernig þetta virkar, nú til dags taka stjórnmálamenn venjulega ekki stefnu heldur eru orðnir talsmenn fyrir stefnu stofnananna.“ (mbl. 3.11.2021)

Sigmundur Davíð viðurkenndi með öðrum orðum uppgjöf sína fyrir kerfiskörlunum og sagðist hafa brugðist íslensku þjóðinni. Sá viðsnúningur Sigmundar Davíðs breytir engu um þjóðréttarlegar skuldbindingar sem hann staðfesti. Hann segir hins vegar mikið um gildi prinsippfestunnar sem Sigmundur Davíð boðar í áminningargreinum sem hann telur sig hafa efni á að skrifa til leiðbeiningar sjálfstæðismönnum!

Heildarmyndina verður að hafa í huga þegar látið er eins og auðvelt sé og öllum til geðs að tíndar séu rúsínur úr loftslagsbollunni með vísan til sérhagsmuna.