7.10.2018 11:20

Sérstakur saksóknari og Joly

Það var ekki auðhlaupið að fá hæfan mann til að setjast í embætti sérstaks saksóknara eftir árásirnar gegn þeim sem máttu þola ofsóknir vegna Baugsmálsins.

Boðað er að rætt verði um hrunið í næsta þætti af Kveik í ríkissjónvarpinu og meðal annars komi þar fram að Egill Helgason sjónvarpsmaður lofaði Evu Joly lögfræðingi frá Frakklandi að hún mundi hitta Björk kæmi hún í sjónvarpsþátt sinn – Joly setti þetta sem skilyrði fyrir komu sinni. Af henni leiddi síðan hávær krafa um að Joly yrði íslenskum stjórnvöldum til ráðgjafar við rannsókn fjármálasviptinga í aðdraganda hrunsins og tók hún það að sér fram í október 2010 þegar hún ákvað að bjóða sig fram til forseta í Frakklandi fyrir vinstri-græna þar og hlaut hraklega útreið. Nú starfar Joly sem lögfræðingur í Frakklandi.

Varla dettur nokkrum í hug að kenna það við spillingu að Egill gerði Joly þennan greiða til að fá hana til Íslands. Mörgum blöskraði hins vegar hvernig hún talaði, margt af því rímaði þó því miður við það sem þeir kynntust sem unnu að rannsókn Baugsmálsins í sex ár fram að bankahruninu. Engum duldist til dæmis að Baugsmenn misnotuðu Fréttablaðið í eigin þágu og margir háværir álitsgjafar gengu í lið með þeim til að úthrópa rannsóknarmenn og okkur stjórnmálamennina sem vorum sakaðir um að standa að ofsóknum í garð þeirra sem sættu ákæru.

Reynslan af þessum árásum öllum – sem liggja jafnan í þagnargildi í áróðrinum um að aðhaldsleysi hafi skort gagnvart fésýslumönnum af hálfu eftirlitsaðila fyrir hrun – varð til þess að ég gerði tillögu um að komið yrði á fót embætti sérstaks saksóknara. Það var ekki auðhlaupið að fá hæfan mann til að setjast í embættið eftir árásirnar gegn þeim sem máttu þola ofsóknir vegna Baugsmálsins. Var það eitt síðasta embættisverk mitt sem dómsmálaráðherra að skipa Ólaf Þór Hauksson, sýslumann á Akranesi, í embættið. Var það vel ráðið.

Hvað sem leið lögum um sérstakan saksóknara og vali á manni í embættið breyttist afstaða álitsgjafanna háværu og umræður um fésýslumenn féllu í allt annan farveg eftir hrun en fyrir það. Nú voru þeir úthrópaðir en ekki lögreglan eða dómsmálaráðherrann. Egill Helgason býsnaðist til dæmis yfir því að ég hefði ekki tryggt sérstökum saksóknara næga fjármuni en nokkrum mánuðum áður sætti saksóknari ámæli vegna kostnaðar við rannsókn Baugsmálsins. Allt var sett í annan búning og samhengi en fyrir hrunið og ótrúlega lítil áhersla er enn þann dag í dag á að minna á samfelluna. Ráðandi söguskoðun eftirhrunsáranna leyfir það ekki.

Þetta minnir helst á Chaplin-myndina um ríka manninn sem var vinur flækingsins á meðan þeir sátu saman að drykkju en sparkaði honum á dyr sem úrþvætti þegar hann vaknaði. Ólíklegt er að áhorfendur Kveiks fái að sjá það fræga myndbrot það fellur ekki að ríkjandi söguskoðun.