8.10.2022 11:01

Sérstaða ESB-flokka – uppnám Ingu

Er það eitt af sér-íslensku fyrirbærunum að þingmenn taka undir með þeim með vilja brjóta framkvæmd reglna um brottvísunarhluta Schengen-kerfisins á bak aftur.

Tvö mál hafa verið til umræðu hér undanfarið. Til að halda þræði í þeim skal staldrað við það sem ber hæst nú:

1. Útlendingamál

Ferð allsherjar- og menntamálanefndar alþingis til kynna sér útlendingamál í Danmörku og Noregi er enn til umræðu í Morgunblaðinu í dag (8. október).

Eyjólfur Ármannsson, Flokki fólksins segir:

„Við þurfum að taka upp svipað kerfi og er í þessum ríkjum. Það þarf að nást breið sátt á Alþingi um það og ég tel að okkur þingmönnum beri skylda til þess. Noregur og Danmörk eru í Schengen eins og við og við eigum að geta haft sama kerfi og þau. Afgreiðsla mála þarf líka að vera hröð á fyrstu stigum... Við þurfum að standa við okkar alþjóðlegu skuldbindingar, líkt og þessar þjóðir gera, og tryggja að fólk sem sækir um vernd fái réttláta málsmeðferð og uppfylli alþjóðleg skilyrði til að fá verndina.“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir Framsóknarflokki segir:

„Lögin [hér] eru ekki í samræmi við þróunina í samfélaginu. Þess vegna erum við að vinna með gamalt kerfi sem er ekki að höndla þetta. Ég tel að það þurfi að breyta kerfinu... Ég held að við þurfum að laga kerfið að getu okkar. Hvernig það verður gert veit ég ekki en ég tel að það þurfi að gera í samstarfi við alla sem koma að málaflokknum. Ég vil að þeir sem raunverulega þurfa að fá alþjóðlega vernd fái hana.“

Sigmar Guðmundsson Viðreisn segir:

„Við [íslensk stjórnvöld] erum svolítið mikið að reyna að búa til girðingar og að fækka í hópnum frekar en hitt... Þótt við og önnur lönd reisum miklar girðingar þá hverfur þessi vandi ekki. Við þurfum miklu frekar að velta því fyrir okkur hvernig við getum tekið á móti fleirum með skilvirkari hætti og komið þeim fyrr inn í samfélagið... Ég er ekki sammála því að við eigum að senda þetta fólk frá okkur af því að það er með vernd í Grikklandi. Aðstæður fólks í Evrópu geta líka verið þannig að það eigi rétt á vernd hér á Íslandi.“

Þarna skapar Viðreisnarþingmaðurinn sér sérstöðu með þingmönnum Samfylkingar og Pírata. Þingmenn flokkanna þriggja sem tala fyrir aðild Íslands að ESB skipa sér allir á skjön við ráðandi stjórnarmið innan sambandsins um að virða beri Schengen-reglur og þá ekki síst reglur um brottvísun þeirra sem hafa hlotið þá lögmæta afgreiðslu yfirvalda. Er það  eitt af sér-íslensku fyrirbærunum að þingmenn taka undir með þeim með vilja brjóta framkvæmd reglna um brottvísunarhluta kerfisins á bak aftur.

1274685Brottvísun mótmælt á Austurvelli (mynd mbl.is).

2. Flokkur fólksins

Jón Hjaltason segist að uppfylltum skilyrðum ætla að segja sig úr nefndum Akureyrarbæjar sem kjörinn fulltrúi Flokks fólksins enda hrindi stjórn flokksins „í framkvæmd eigin samþykkt um að skipa hlutlausa rannsóknarnefnd er fari ofan í kjölinn á þessu máli,“ segir í grein i Fréttablaðinu 7. október.

Í greininni segir að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, telji það eitt vaka fyrir Bryjólfi Ingvarssyni, efsta manni Flokks fólksins á Akureyri, „að sundra og grafa undan flokknum, hann sé „andsetinn af Halldóri í Holti“..“. Flokksformaðurinn á þar við séra Halldór Gunnarsson, fyrrv. prest í Holti undir Eyjafjöllum, fyrrverandi flokksbróður hennar.