Sérsniðið fyrir Huawei
Hvernig rökstyðja sérfræðingar íslenskra stjórnvalda að allt önnur skilyrði eigi að gilda hér gagnvart Huawei en annars staðar í Evrópu?
Það var löngu tímabært að samskiptin við Huawei
vegna 5G-farkerfisins fengju það rými í íslenskum fjölmiðli sem Morgunblaðið
gefur málinu í dag (22. október). Það þurfti ákvörðun sænskra yfirvalda um að
loka á Huawei til að vekja þennan áhuga.
Það er rangt hjá forstjóra NOVA að gefa til
kynna að ákvörðun Svía sé reist á pólitískum forsendum. Hún er tekin að lokinni
athugun á vegum sænsku öryggislögreglunnar, Säpo, og sænska hersins. Ákvörðun
sænsku póst- og fjarskiptastofnunarinnar felur í sér strangari skilyrði en
margir ætluðu því að með henni er einnig krafist að Huawei-búnaður í 4G-kerfinu
verði fjarlægður þar sem 4G og 5G verða samnýtt.
Ný lög um fjarskipti komu til sögunnar í byrjun ársins í Svíþjóð. Í lögunum eru ákvæði sem skylda sænsk yfirvöld til að taka mið af þjóðaröryggi við ákvarðanir um farkerfin sem snerta hvern íbúa landsins og alla starfsemi í landinu.
Stefan Lövfen, forsætisráðherra Svía, sagði um bannið á Huawei:
„Markmið laganna er að tryggja öryggi hér í Svíþjóð ... en við höfum ekki beint þessu gegn nokkru landi. Það eru stofnanirnar sem meta hvað er heimilt og óheimilt. Og við treystum að sjálfsögðu því mati.·
Sænska bannið nær til Huawei og kínverska fyrirtækisins ZTE en bæði fyrirtækin eiga í viðskiptum hér á landi. Engu er líkara en íslensk stjórnvöld telji sig þurfa að finna upp hjólið í þessum málaflokki og það eigi að sérsníða íslenskar öryggisreglur að einhverjum hagsmunum hér. Á þingi er lagafrumvarp frá samgönguráðherra til umræðu en þar er þjóðaröryggisvandanum velt á undan sér. Þingmenn sýna þessum þætti öryggismálanna lítinn sem engan áhuga. Hvar viðra þeir skoðanir sínar?
Það væri hægt að spara tíma og fé með því að fara að ráðum traustra samstarfsríkja, þar eru norrænu ríkin í fremstu röð. Tregða íslenskra stjórnvalda til virkrar samvinnu í þessu efni er óskiljanleg.
Þorleifur Jónsson, forstöðumaður hjá Póst- og fjarskiptastofnun, sagði á visir.is 2. ágúst 2020:
„Við höfum nú verið í sambandi við okkar systurstofnanir í Evrópu og víðar og það hefur hvergi í rauninni sannast neitt á þetta fyrirtæki [Huawei] um neitt ólöglegt eða misjafnt varðandi öryggi þeirra. Þannig að eins og staðan er í dag þá get ég ekki með góðu móti sagt að það sé einhver hætta.“
Hvað skyldi Þorleifur segja núna eftir að öflugasta póst- og fjarskiptastofnun Norðurlanda hefur tekið þessa skýru ákvörðun með vísan til þjóðaröryggis Svía? Hvernig rökstyðja sérfræðingar íslenskra stjórnvalda að allt önnur skilyrði eigi að gilda hér en annars staðar í Evrópu? Stafar það af því að þá skortir vitneskju sem þjóðir með öflugar varnir eigin öryggis hafa? Hve lengi á að sætta sig við að slíkur vitneskjuskortur ráði hér för yfirvalda?
Nú er evrópskur netöryggismánuður. Hér þurfa umræður um netöryggi að rista mun dýpra en til þessa. Af opinberri hálfu gerist það ekki nema með miklu markvissari vinnubrögðum í þágu þjóðaröryggis.