Sérhagsmunir Sigurjóns og Lilju Rafneyjar
Augljóst er að Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sveik forsvarsmenn strandveiðisjómanna og traðkaði á sérhagsmunum þingmanna Flokks fólksins á lokadögum þingsins.
Augljóst er að Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sveik forsvarsmenn strandveiðisjómanna og traðkaði á sérhagsmunum þingmanna Flokks fólksins á lokadögum þingsins.
Það var á verksviði ráðherrans að sjá til þess að tímabil strandveiða yrði lengt í 48 daga eins og segir í stjórnarsáttmálanum. Ráðherrann hélt greinilega í fyrstu að lengja mætti tímabilið með reglugerð og einnig að auka aflamarkið.
Það var því ekki fyrr en 28. maí sem ráðherrann lagði fram frumvarp í þeim tilgangi að tryggja 48 veiðidaga til strandveiða á árinu 2025. Var í frumvarpinu lagt til ákvæði til bráðabirgða um að ráðherra fengi heimild til að flytja milli ára aflamagn sem kæmi til úthlutunar á komandi árum.
Þingmenn Flokks fólksins, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Sigurjón Þórðarson. Þau gæta sérhagsmuna sinna í strandveiðum á alþingi.
Fyrsta umræða um frumvarpið fór fram 3. og 4. júní en eftir það (5. júní) fór það til atvinnuveganefndar undir formennsku Sigurjóns Þórðarsonar, þungavigtarmanns innan Flokks fólksins. Þaðan kom málið 26. júní og var annar þingmaður Flokks fólksins, Lilja Rafney Magnúsdóttir, framsögumaður meirihluta nefndarinnar við umræður sem stóðu í 5 klukkustundir 8. júlí en þá tók þingforseti málið af dagskrá. Setti forsetinn ekki málið aftur á dagskrá fyrir þinglok 14. júlí.
Eftir að forseti hafði valið mál sem yrðu afgreidd fyrir þinglok og sleppt strandveiðifrumvarpinu gat Lilja Rafney ekki axlað eigin ábyrgð á meðferð frumvarpsins heldur veittist að stjórnarandstöðunni í umræðum um atkvæðagreiðslu um veiðigjaldshækkunina og sakaði hana um „hræsni“ gagnvart „brothættum byggðum“ með því að „stöðva strandveiðifrumvarpið“.
Þegar stjórnarandstæðingarnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Njáll Trausti Friðbertsson andmæltu þessum áburði Lilju Rafneyjar kröftuglega hljóp Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í ræðustólinn og tók undir með auglýsingu BYKO þegar hún sagði: Gerum þetta saman! Vildi hún taka strandveiðifrumvarpið strax á dagskrá þennan sama dag eða daginn eftir. Forseti lét þetta sem vind um eyru þjóta og sleit þinginu.
Þegar hugað er að ákefð Sigurjóns og Lilju Rafneyjar í þessu máli má líta til þess að þau eiga bæði beinna hagsmuna að gæta. Eiginkona Sigurjóns á 49% hlut í útgerð strandveiðibáts og fara hjónin með stjórn og prókúru félagsins. Eiginmaður Lilju Rafneyjar á 49% hlut í strandveiðiútgerð og fara þau hjónin með stjórn og prókúru útgerðarinnar, segir í Morgunblaðinu 17. júlí.
Þessa tilhögun má rekja til svonefndrar 51% reglu. Lögmæti veiðanna ræðst af því að á strandveiðibát sé alltaf sá sem fer með meira en 50% eignarhlut í honum. Raunverulegur eigandi hefur svigrúm til að afhenda þriðja manni 51% sýndarhlut svo að hann geti róið gegn þóknun.
Tveir þingmenn Flokks fólksins í atvinnuveganefnd þingsins gæta eigin hagsmuna. Þá segir Örn Pálsson, talsmaður strandveiðimanna, í grein á Vísi 16. júlí að „hávær minnihluti sérhagsmuna“ hafi staðið gegn rýmri heimildum til strandveiða á alþingi. Hversu blindir geta menn orðið í sérhagsmunagæslu sinni? Þeir verða ekki skýrari en hjá Sigurjóni og Lilju Rafneyju.