13.2.2020 8:36

Sérhagsmunaflokkurinn Viðreisn

Sé litið á afstöðu stjórnmálaflokkanna má segja að í því felist gæsla mikilla pólitískra sérhagsmuna að halda fast við ESB-aðildarstefnuna.

Eftir eigendaskipti á Fréttablaðinu skýrist stig af stigi að stefna blaðsins fellur að málflutningi Viðreisnar enda er aðaleigandi blaðsins einn af stofnendum flokksins og telur að Íslandi sé best borgið innan Evrópusambandsins.

Sé litið á afstöðu stjórnmálaflokkanna má segja að í því felist gæsla mikilla pólitískra sérhagsmuna að halda fast við ESB-aðildarstefnuna þótt tilraunin til aðildar hafi gjörsamlega misheppnast á árunum 2009 til 2013 og fylgi almennings við aðild hafi dvínað.

Vidreisn_logo_nourlÞorsteinn Pálsson, hugmyndafræðingur Viðreisnar, var ráðinn sem dálkahöfundur Fréttablaðsins í stað Þorvaldar Gylfasonar prófessors sem skrifaði reglulega í blaðið á meðan Jón Ásgeir Jóhannesson fór þar með völd í stóru og smáu. Þorvaldur birtir nú greinar á vefsíðunni Stundinni sem skipar sér einna lengst til vinstri af slíkum síðum. Þorsteinn og Þorvaldur eru samstiga þegar litið er til ESB.

Nýtt dæmi um stuðning Fréttablaðsins við Viðreisn má sjá í leiðara blaðsins í dag (13. febrúar) þar sem höfundurinn, Kolbrún Bergþórsdóttir, tekur sér fyrir hendur að verja skýrslubeiðni Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, og fleiri þingmanna sem á að leiða í ljós að samsvörun sé milli spillingjargjalda sem Samherji greiddi fyrir veiðirétt í lögsögu Namibíu og veiðigjalda sem greidd eru hér á landi á grundvelli íslenskra laga og reglna. Hér á þessum stað hafa áður verið færð rök fyrir að réttmætt sé að kenna skýrslubeiðnina við lýðskrum.

Kolbrún segir gagnrýni á málatilbúnaðinn í kringum þessa skýrslubeiðni sérhagsmunagæslu og hún sýni að gagnrýnendur láti sig hana meiru varða en almannahagsmuni. Þessar fullyrðingar eru ekki annað en framhald af lýðskruminu. Að í því felist gæsla sérhagsmuna að gagnrýna þingmál málefnalegum rökum og séu þau kynnt gangi menn erinda Samherja er ekkert annað en lýðskrum. Því má velta fyrir sér Kolbrúnu til afsökunar hvort hún hafi lesið beiðni Þorgerðar Katrínar o.fl. eða rökstuðninginn með henni.

Í lok leiðarans segir Kolbrún Bergþórsdóttir:

„Undanfarið hefur mátt heyra auglýsingar frá einum af stjórnmálaflokkum landsins, Viðreisn. Ein þeirra hljóðar svo: Við veljum almannahagsmuni, ekki sérhagsmuni. Þetta er gott kjörorð sem allir stjórnmálaflokkar landsins ættu heilshugar að taka undir.“

Að leiðarahöfundur Fréttablaðsins reyni á þennan hátt að hvítþvo Viðreisn, stjórnmálaflokkinn sem varð til í kringum sérhagsmuni stofnenda hans, þar á meðal aðaleiganda Fréttablaðsins, er grátbroslegt svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Hvaða almannahagsmuni er Viðreisn að verja með því að berjast fyrir aðild að ESB? Kolbrún skuldar okkur lesendum hennar skýringu á því.

Heift Viðreisnar í garð íslenskra útgerðarfyrirtækja er athugunarefni. Hvað veldur? Er það andstaða útgerðarmanna við ESB-aðild? Forystumenn flokksins sitja ekki heldur af sér neitt tækifæri til að reka hornin í íslenskan landbúnað þótt þeir þegi þunnu hljóði um allt sem viðgengst í landbúnaðarmálum innan ESB. Að ræða þá sóun fellur ekki að sérhagsmunagæslu flokksins.