Sendiráðsofsóknir í Moskvu
Rússneski sendiherrann í London var kallaður í breska utanríkisráðuneytið og honum gert ljóst að bresk stjórnvöld myndu ekki líða ógnanir í garð breskra sendiráðsstarfsmanna og fjölskyldna þeirra.
Breska blaðið Daily Express skýrði frá því miðvikudaginn 12. mars að breska stjórnin hefði rekið diplómatahjón í rússneska sendiráðinu úr landi. Væri þetta svar við „sífellt ógnvænlegri samræmdum yfirgangi“ gegn breskum embættismönnum í Moskvu.
Rússneski sendiherrann í London var kallaður í breska utanríkisráðuneytið og honum gert ljóst að bresk stjórnvöld myndu ekki líða ógnanir í garð breskra sendiráðsstarfsmanna og fjölskyldna þeirra.
Skrifstofuhús rússneska sendiráðsins við Garðastræti í Reykjavík. Vegna lokunar íslenska sendiráðsins í Moskvu er enginn rússneskur sendiherra hér og mun færri starfsmenn en áður (mynd:mbl.is).
Vakin var athygli á þessari frétt á dv.is vegna þess að í henni er þess getið að fyrir 18 mánuðum hafi íslenska sendiráðinu í Moskvu verið lokað tímabundið vegna þess að íslenskir starfsmenn þess hefðu sætt yfirgangi af hálfu rússneskra leyniþjónustumanna.
Þeir færu óboðnir inn í íbúðir diplómata sem kæmu að heimili sínu ísköldu þar sem gluggar hefðu verið opnaðir um hávetur eða sígarettustubbar væru á glámbekk. Þá hefði kona í starfsliði íslenska sendiráðsins sem rússnesk yfirvöld vissu að væri vegan óvænt fengið kjötsteik í ískápinn hjá sér.
Breska blaðið snýr sér til Davids Dunn, prófessors í alþjóðasamskiptum við Birmingham-háskóla, sem segir að með þessu framferði sínu vilji Rússar láta diplómatana vita að þeir hafi aðgang að íbúðum þeirra og geti komið þangað hvenær sem er. Önnur ógnaraðferð sé að stöðva skólabíl sem flytji börn sendiráðsfólks og tefja hann í tvær klukkustundir undir yfirskyni öryggisleitar. Allt brjóti þetta í bága við Vínarsamninginn um stjórnmálasamband. Rússnesk yfirvöld beiti þessari aðferð til að neyða erlend ríki til að loka sendiráðum sínum.
Þegar íslenska sendiráðinu var lokað í Moskvu 1. ágúst 2023 var gefin diplómatísk skýring á ákvörðuninni um forgangsröðun innan utanríkisþjónustunnar. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var utanríkisráðherra á þeim tíma. Hún sagði við fréttastofu RÚV nú 14. mars:
„Við töldum okkur ekki geta tryggt öryggi okkar starfsfólks í Moskvu og það voru ástæður fyrir því. Aðrar ástæður voru fyrir þeirri ákvörðun að leggja starfsemina tímabundið niður en þetta hafði áhrif.“
Á sínum tíma lokuðu Norðmenn ræðisskrifstofu sinni í Múrmansk vegna þess að norska utanríkisráðuneytið taldi sig ekki geta tryggt öryggi starfsmanna þar. Sömu sögu er að segja um ræðisskrifstofur fjölda ríkja um allt Rússland sem halda í sendiráð í Moskvu með eigin öryggisverði fyrir starfsfólk sitt.
Vegna lokunar aðgerðarlauss íslensks sendiráðs í Moskvu með öryggislausu starfsfólki hafa mörg einkennileg fordæmingarorð fallið hér. Þau gera það enn eins og sjá mátti í athugasemdum við fréttina á dv.is í tilefni af því sem sagði í Daily Express.
Steinar Jónsson segir:
„Þvílík þvæla sem þessi „frétt“ er. Hún endurspeglar ekki á neinn hátt hvernig milliríkjasamskipti eða leyniþjónustur virka. [...] Þessi frétt er ekkert annað en áróður á virkilega lágu plani.“
Þessi texti Steinars gæti verið beint úr lygasmiðju Kremlverja í Moskvu.