Sendiráð í stríðsham
Langlundargeð utanríkisráðherra og embættismanna hennar í garð oflátunga rússneska stríðsherrans sem nú er eftirlýstur af alþjóðasakamáladómstólnum vekur vaxandi undrun.
Myndin sem fylgir þessum pistli er teiknuð í apríl 2022 af 12 ára rússneskri skólastúlku Möshu Moskalevu sem bjó með einstæðum föður sínum í bænum Jefremov 320 km fyrir sunnan Moskvu. Vegna myndarinnar var hún rekin úr skóla og sett á upptökuheimili. Faðir hennar var sektaður og settur í stofufangelsi á heimili þeirra án þess að mega hafa samband við dóttur sína – nú á hann yfir höfði sér fangelsisvist.
Masha 12 ára var rekin úr rússneskum barnaskóla fyrir þessa mynd. Til vinstri er fáni Úkraínu með áletruninni: Heill Úkraaínu! Til hægri er rússneski fáninn með áletruninni: Ekki stríð! Móðir stendur með dóttur sinni og bægir rússneskum flugskeytum á brott.
Lítum á atlögu rússneska sendiráðsins í Reykjavík gegn íslenskum stjórnvöldum í ljósi þessarar sögu:
Strax eftir að bandaríska varnarliðið hvarf héðan 30. september 2006, raunar sama dag, hófu Rússar að senda fyrirvaralaust langdrægar sprengjuvélar upp undir strendur Íslands – þær höfðu varla sést á þeim slóðum frá því að Sovétríkin hrundu 1991. Geir H. Haarde forsætisráðherra fór gagnrýnisorðum um flug rússnesku hervélanna á toppfundi NATO í Búkarest árið 2008 að Vladimir Pútin Rússlandsforseta viðstöddum.
Skömmu eftir fundinn bað rússneski sendiherrann í Reykjavík um að fá að hitta Sturlu Sigurjónssos, sendiherra, þáv. ráðgjafa forsætisráðherra um utanríkismál. Sendiherrann lýsti óánægju yfir ósmekklegri athugasemd forsætisráðherra Íslands á leiðtogafundinum í viðurvist forseta Rússlands. Ferðir flugvélanna sneru að Bandaríkjamönnum en ekki Íslendingum.
Þegar Sturla benti sendiherranum á að ekkert bandarískt herlið væri lengur á Íslandi og sem fullvalda þjóð bæru Íslendingar ábyrgð á eigin öryggi og á öryggi borgaralegs flugs við land sitt lét Rússinn þá athugasemd sem vind um eyru þjóta. Hann endurtók aðeins að Íslendingar ættu ekkert að skipta sér af þessum flugferðum.
Sturla segir að samskiptin við sendiherrann vegna þessa máls sýni að Rússar gefi ekkert fyrir áhyggjur Íslendinga af eigin öryggi. Sjá hér.
Þetta er nú rifjað upp þar sem enn á ný sér sendiráð Rússa á Íslandi ástæðu til að sýna íslenskum stjórnvöldum lítilsvirðingu. Sendiráðið ræðst á Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og ekki í fyrsta sinn.
Á ráðstefnu um þjóðaröryggismál 22. mars tók ráðherrann sér í munn orð sem ómuðu meðal Úkraínumanna sem neituðu að gefast upp fyrir Rússum og segðu meðal annars: „Rússneski floti, þið megið fokka ykkur“. Baðst ráðherra afsökunar á orðbragðinu, enda ekki ráðherra sæmandi, boðskapurinn væri þó mikilvægur.
Vegna þessara orða sendi rússneska sendiráðið í Reykjavík frá sér yfirlýsingu 23. mars og veittist að utanríkisráðherra fyrir „dónalegt orðbragð“ (e. dirty language) og „vanhæfni“ (e. inability) íslensku utanríkisþjónustunnar til að færa sannfærandi rök fyrir afstöðu sinni og til að skilja hvað sé að gerast. Hótar sendiráðið að taka mið þessum „stefnumarkandi“ viðhorfum við mat á afstöðu sinni í samskiptum við íslenska aðila.
Hér hefur árangurslaust verið lagt til að rússneska sendiherranum verði vísað úr landi. Langlundargeð utanríkisráðherra og embættismanna hennar í garð þessara oflátunga rússneska stríðsherrans sem nú er eftirlýstur af alþjóðasakamáladómstólnum vekur vaxandi undrun. Þeir traðka á málfrelsi annarra og ganga æ lengra sé ekkert að gert.