5.4.2019 11:48

Seðlabankastjóri án aðhalds

Engin opinber stofnun sem fellur undir eftirlitsvald umboðsmanns alþingis hefur fengið verri útreið undanfarið en Seðlabanki Íslands.

Engin opinber stofnun sem fellur undir eftirlitsvald umboðsmanns alþingis hefur fengið verri útreið undanfarið en Seðlabanki Íslands ­– nema ef vera skyldi Reykjavíkurborg undir stjórn Dags B. Eggertssonar.

Það er sameiginlegt með forsvarsmönnum þessara stofnana Má Guðmundssyni og Degi B. að þeir gera ekkert með þessar aðfinnslur, sama úr hvaða átt þær koma.

Á meðan kjaraviðræður voru á viðkvæmu stigi hafði Már Guðmundsson uppi viðvörunarorð og gaf ráð um hvernig staðið skyldi að niðurstöðu viðræðnanna svo að félli að markmiðum peningastjórnar seðlabankans.

Sedlabanki34_ISLÞegar samið hafði verið létu áhugamenn um að seðlabankinn lækkaði stýrivexti orð falla um að markmið samninganna hefðu meðal annars verið að skapa svigrúm til vaxtalækkunar. Vonandi tækju þeir sem fara með stjórn peningamála mið af því. Er settur þrýstingur í þessa veru á seðlabankann með setningu í lífskjarasamningunum og dregið rautt strik gagnvart bankanum.

Doktorar í hagfræði og umsækjendur um embætti seðlabankastjóra við lok skipunartíma Más hafa risið til varnar sjálfstæði hans og bankans.

Reynslan sýnir því miður að ekki veitir að aðhaldi á seðlabankastjórann. Hann mótmælir því að vísu þegar það kemur frá bankaráði seðlabankans, hann gerir lítið úr aðhaldi umboðsmanns alþingis, svarar fullum hálsi í þingnefnd, stefnir ríkinu til að fá hærra kaup og nú er risið upp gegn aðhaldi aðila vinnumarkaðarins.

Her hagfræðidoktora rís bankastjóranum til varnar á lokametrunum. Talað er um bankann eins og ríki í ríkinu, utan og ofan við allt annað. Ýti það undir stjórnarhætti á borð við þá sem lýst er í öllum aðfinnslunum á hendur Má er tímabært að auka aðhaldið á öllum sviðum.