26.11.2017 9:18

SDG segir umgjörðina ráða stjórnarmyndun

Stjórnmálamenn sem hafa fallið af stalli reyna stundum að skapa sér nýja stöðu til setu í ríkisstjórn með því að stofna í kringum sjálfa sig stjórnmálaflokk.

Á vefsíðunni Eyjunni föstudaginn 24. nóvember segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG), formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, telji það einu ástæðuna fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn reyni myndun ríkisstjórnar að forystumenn flokkanna vilji tryggja sér ráðherrastóla. Það eru ekki nein ný sannindi að forystumenn stjórnmálaflokka leiti leiða til að hafa áhrif á gang og stjórn þjóðmála með því að sitja í ríkisstjórn. Raunar er það alls ekki fréttnæmt.

Á Eyjunni er vitnað í samtal við SDG á Útvarpi Sögu þar sem hann sagði:

„Sumir sem hafa verið ráðherrar komast aldrei úr því hlutverki og þrá að fá ráðherraembætti meira en nokkuð annað, að fara inn í ráðuneyti, hafa starfsmenn, ráðherrabíl og svo allt sem að þessu fylgir.“

Þetta eru léttvæg rök fyrir myndun ríkisstjórnar og ráði þau hefði hún ekki tekið svona langan tíma. Miklu sennilegra er að fyrir forystumönnum flokkanna vaki að reyna að binda sem flesta lausa enda með stjórnarsáttmála. Það sé talið auðvelda að Sjálfstæðismenn og Vinstri grænir gangi til stjórnarsamstarfs.

Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu er notaður fyrir fundi og móttökur á vegum ráðherra.

Stjórnarsáttmáli kemur ekki í veg fyrir að upp komi óvænt atvik sem valdi því að allt fari á annan endann innan stjórnmálaflokka eða milli þeirra. Slík atvik leiddu til upplausnar í Framsóknarflokknum í apríl 2016 og uppákomunnar um miðjan september 2017 sem varð bæði ríkisstjórninni og Bjartri framtíð að falli.

Vilji stjórnmálamenn styrkja stöðu sína og flokka sinna með aðild að ríkisstjórn sinna þeir aðeins því hlutverki sem felst í að stýra vilja kjósenda í farsælasta og stöðugusta farveg sem unnt er að finna.

Stjórnmálamenn sem hafa fallið af stalli reyna stundum að skapa sér nýja stöðu til setu í ríkisstjórn með því að stofna í kringum sjálfa sig stjórnmálaflokk. Þetta gerði Albert Guðmundsson þegar hann stofnaði Borgaraflokkinn, Jóhanna Sigurðardóttir þegar hún stofnaði Þjóðvaka og SDG þegar hann stofnaði Miðflokkinn.

SDG vildi að sjálfsögðu komast í ríkisstjórn með það góða fylgi sem hann hlaut í kosningunum 28. október 2017. Hafi verið meiri spurn eftir SDG meðal kjósenda en margir væntu er hún lítil meðal forystumanna annarra flokka. Þeir hafa greinilega litla eða enga löngun til að ræða stjórnarmyndun við hann að kosningum loknum.

SDG skipulagði endurkomu sína í stjórnmálin með nýjum flokki sem verður áhrifalítill á þingi vegna hans sjálfs. Hugsanlega sækja þingmenn Miðflokksins hver um sig til gamalla flokka sinna til að tryggja sér áhrif. Sömu örlög kunna að bíða þingmanna Viðreisnar.

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra réð mestu um upplausn Bjartrar framtíðar. Nú hefur henni verið treyst fyrir formennsku í flokknum. Það lofar ekki góðu um að hann nái aftur að bjóða fram til alþingis. Flokkurinn á öfluga fulltrúa í sveitarstjórnum, bæði í Kópavogi og Hafnarfirði. Ef til vill tekst þeim að framlengja líf Bjartrar framtíðar.