SDG segir samblástur gegn sér innan SÞ
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigmundur Davíð telur ómaklega að sér vegið í ríkisútvarpinu. Hitt er nýmæli að starfsmenn stofnana Sameinuðu þjóðanna efni til samblásturs gegn honum.
Satt að segja höfðu afskipti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar (SDG), formanns Miðflokksins, af loftslagsmálum farið fyrir ofan garð og neðan þar til í dag (14. september) að hann birtir grein í Morgunblaðinu og afhjúpar að með aðstoð starfsmanns Sameinuðu þjóðanna í Brussel hafi verið blásið til alþjóðlegs samsæris gegn sér.
Sigmundur Davíð vitnar í ræðu sína við stefnuumræður ríkisstjórnarinnar að kvöldi miðvikudags 11. september. Þar hafi hann eins og oft áður lagt „áherslu á mikilvægi umhverfismálanna“, nálgast ætti þetta stóra viðfangsefni með hjálp vísinda og út frá staðreyndum. Það „hjálpaði ekki að viðhafa tilhæfulausan hræðsluáróður “. Hann segist einnig hafa vísað í „einkar skynsamlegar athugasemdir Petteri Taalas, forstjóra Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO), um mikilvægi þess að við nálguðumst loftslagsmál út frá vísindum og skynsemi en ekki hræðslu og öfgum“.
Petteri Taalas, forstjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO).
Í greininni segir að fimmtudagurinn 12. september hafi ekki verið „hálfnaður þegar dreift var nýrri yfirlýsingu frá Finnanum skynsama hjá WMO“. Flokksformaðurinn spyr: „Hvernig skyldi það hafa gerst?“ og dregur upp þessa mynd:
„Finninn vinalegi var e.t.v. nýsestur með morgunkaffið á skrifstofu sinni í Genf þegar ritarinn skaut inn kollinum og tilkynnti að í símanum væri maður sem segðist vera íslenskur starfsmaður Sameinuðu þjóðanna í Brussel. Þessi maður héldi því fram að á Íslandi væri fullyrt að hann, sjálfur framkvæmdastjóri WMO, teldi enga þörf á aðgerðum í loftslagsmálum. Þetta væri byggt á blaðaviðtölum við hann.
Hvort sem skilaboðin bárust með þessum hætti eða ekki lét Finninn yfirvegaði hafa sig í að verja hluta dagsins í að skrifa langa yfirlýsingu um að hann hefði vissulega áhyggjur af loftslagsmálum.“
Sigmundur Davíð segir „að embættismaðurinn og aktívistinn í Brussel“ hafi séð um að miðla yfirlýsingu Finnans til íslenskra fjölmiðla. „Maður sem hafði enga aðkomu að málinu (hvað sem líður tengslum við umhverfispopúlista á Íslandi).“
Þá segir Sigmundur Davíð:
„Ríkisútvarpið lét ekki sitt eftir liggja. Í Kastljósi var málinu fylgt eftir með hreint dæmalausu viðtali við stjórnmálafræðing. Þar leitaðist þingfréttaritari ríkisins til margra ára við að fylgja eftir hlutleysisstefnu stofnunarinnar með því að krefja viðmælandann svara um hvort það væri ekki alveg á hreinu að hann teldi Miðflokkinn algjörlega glataðan.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigmundur Davíð telur ómaklega að sér vegið í ríkisútvarpinu. Hitt er nýmæli að starfsmenn stofnana Sameinuðu þjóðanna (SÞ) efni til samblásturs gegn honum. Af grein flokksformannsins má ráða að hann hafi ekki sagt sitt síðasta orð um þetta mál.
Þess gætir í vaxandi mæli hjá Sigmundi Davíð og skoðanabræðrum hans, t.d. í þriðja orkupakkamálinu, að þeir líta á baráttu sína hér á landi sem anga af einskonar heimsstríði við „djúpríkið“ og glóbalista. Birtist þetta meðal annars í málsvörn fyrir Boris Johnson og Nigel Farage í Bretlandi og Donald Trump í Bandaríkjunum – sterku leiðtogana, eitur í beinum embættismanna ESB og SÞ.