16.9.2022 9:45

SD og sænskur raunveruleiki

Blaðakonan segir að það sé ekki málflutningur SD sem tryggi þeim fylgi heldur sænskur raunveruleiki.

Í nýjasta hefti af vikuritinu The Spectator birtist grein eftir sænska blaðakonu, Paulinu Neuding, um Svíþjóðardemókratana, flokkinn sem fékk rúm 20% í þingkosningunum 11. september og ræður úrslitum um hvort tekst að mynda ríkisstjórn í Svíþjóð án jafnaðarmanna. Í upphafi minnir hún lesendur á að í síðustu 24 kosningunum í Svíþjóð hafi Jafnaðarmannaflokkurinn unnið 19 þeirra. Hann varð einnig stærstur núna en skortir fylgi til að mynda ríkisstjórn með öðrum vinstri flokkum, þingamannaskiptingin er 176:173 hægri flokkunum í vil.

Ulf Kristersson, formaður mið-hægriflokksins Moderatarna, reynir nú að mynda stjórn. Flokkur hans tapaði þó fylgi í kosningunum og er þriðji stærsti flokkurinn á þingi á eftir Svíþjóðardemókrötunum (SD).

Jimmie-Akesson-the-man-of-de-demonization-who-led-the-farJimmie Åkesson, formaður SD, fagnar kosningasigri.

Neuding segir að SD eigi gamlar rætur í öfga-hægrihópum en ekki sé lengur unnt að kenna stefnu flokksins við öfga-hægrimennsku. Mikilvægt forskot SD meðal flokkanna sé að árum saman hafi SD verið eini stjórnmálaflokkurinn sem gagnrýndi sænska útlendingastefnu. Það er ekki rasismi, hafi þeir ítrekað sagt, að ræða það sem fer úrskeiðis.

Neuding segir að í SD séu ekki þjóðernissinnaðir valdboðsmenn eins og finna megi í Ungverjalandi og Póllandi. Sandinavísk þjóðernisstefna sé frjálslynd þegar litið sé lífsstíls einstaklinga.

Blaðakonan segir að það sé ekki málflutningur SD sem tryggi þeim fylgi heldur sænskur raunveruleiki. Í fyrsta sinn í sögunni hafi hættan af glæpastarfsemi verið kjósendum efst í huga. Þar falli líka flestir fyrir skotvopnum í Evrópu og hvergi á Vesturlöndum séu sprengjutilræði tíðari. Þau hafi orðið næstum 500 frá kosningunum 2018. Lögreglan segi að í minnsta kosti 60 hverfum hafi hún litla stjórn á málum. Sænski ríkislögreglustjórinn segir hrottaskapinn „meiri en nokkru sinni fyrr“.

Hefðbundnu flokkarnir hafi áttað sig alltof seint á að innflytjendur til Svíþjóðar væru miklu fleiri en þjóðfélagið þoldi. Nú séu um 20% íbúa landsins fæddir erlendis. (Hér á landi er talan 16% sagði forsætisráðherra í stefnuræðu sinni 14. september).

Pauline Neuding segir:

„Árum saman hafa hefðbundnu flokkarnir myndað þöggunarhring í þágu innflytjenda, þagað um mál sem almenningur hefur mikla þörf fyrir að ræða. SD var eini flokkurinn sem lagðist gegn stórum straumi innflytjenda.“

Í lok greinar sinnar vitnar Neuding í dagblaðið Expressen sem sagði að fyrir kosningarnar nú hefðu sænskir vinstrisinnar viljað breyta kosningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu um SD „og Svíþjóðardemókratarnir unnu“.

Sænsk stjórnmál eru eitt, íslensk annað en þó – hér hefur lengi verið ríkur vilji til að mynda „þöggunar- og samráðshring“ allra þingflokka í útlendingamálum og sópa vaxandi vandamálum í þeim efnum undir teppið. Sé vakið máls á vanda vegna innflytjenda eða nauðsyn á skarpari útlendingalöggjöf, landamæravörslu og framkvæmd ákvarðana á þessu sviði er grunnt á ásökunum um rasisma.