22.10.2023 11:14

Scholz vill fjölga brottvísunum

Íslensk yfirvöld ættu að læra af því sem Þjóðverjar gera núna eins og þau fetuðu í spor Merkel með útlendingalögunum árið 2016. 

Í vikunni birtist langt viðtal við jafnaðarmanninn Olaf Scholz Þýskalandskanslara í vikuritinu Der Spiegel. Þar er hann meðal annars spurður hvort nauðsynlegt sé að beina meiri athygli að þeim sem koma til Þýskalands og hverjir þeirra fái að dveljast þar.

Scholz segir að þetta hafi lengi verið gert en nú þurfi að greina betur á milli þeirra sem koma til að sinna nauðsynlegum störfum í landinu og hinna sem leita hælis vegna þess að þeir sæta pólitískum þvingunum. Fyrir utan þessa hópa séu síðan þeir sem tilheyri hvorugum þeirra. Takmarka verði fjölda þeirra sem séu ólöglega í landinu, þeir séu of margir í landinu.

Þegar kanslarinn er spurður hvernig hann ætli að fækka þeim sem komi segir hann ýmsar leiðir til þess. Þýsk yfirvöld hafi til dæmis skilgreint Georgíu og Moldóvu sem örugg lönd enda séu þau umsóknarlönd um ESB-aðild. Unnið sé að því að efla gæslu á ytri landamærum ESB. Innan ESB hafi verið samþykkt að skrá verði flóttamenn í fyrsta landi í stað þess að hleypa þeim viðstöðulaust áfram til Þýskalands. ESB-þingið samþykki þetta vonandi á næstu mánuðum.

65be0595-2b56-4724-adab-ea61d8818dd2_w1240Olaf Scholz Þýskalandskanslari.

Scholz segir að Þjóðverjar hafi einnig hert gæslu á eigin landamærum gagnvart nágrannalöndum sínum. Þá verði að flytja mun fleiri úr landi vegna ólöglegrar dvalar. Þeir verði að yfirgefa Þýskaland sem fái ekki dvalarleyfi þar þrátt fyrir ósk um alþjóðlega vernd. Sjá verði til þess að allan sólarhringinn sé einhver opinber aðili til taks svo unnt sé að flytja þann á brott sem sambandslögreglan hefur í vörslu sinni.

Nauðsynlegt sé að stafvæða afgreiðslu hælisumsókna, hún verði pappírslaus. Afgreiðslu verði að hraða, hælisumsóknir og fyrstu samtöl verði að fara fram á upphaflegum móttökustað. Dómsmálum verði einnig að hraða. Í sumum sambandslöndum komi fyrsta ákvörðun um brottvísun eftir fjóra mánuði en annars staðar geti hún dregist í allt að 39 mánuði. Þetta sé óviðunandi. „Við verðum flytja fólk oftar á brott og hraðar,“ segir kanslarinn.

Der Spiegel segir við Scholz að hann boði nýja, strangari útlendingastefnu og spyr hvers vegna hann hafi skipt um skoðun.

Scholz segir þetta hafa verið viðhorf sitt án tillits til embætta sinna. Hann hafi einnig talað í þessa veru.

Þegar blaðamennirnir segja erfitt að trúa þessu blæs Scholz á það og segir að í ríkisstjórninni hafi lengi verið rætt um þetta og nú birtist framkvæmdin.

Blaðamennirnir lýsa efasemdum um að ný stefna kanslarans njóti stuðnings í flokki hans, SPD. Hann segir að SPD styðji hann algjörlega, flokksforystan, flokksdeildir í einstökum sambandslöndum og þingflokkurinn. Þýska ríkisstjórnin muni einnig vinna saman að framgangi þessarar stefnu.

Augljóst er af þessu samtali að Olaf Scholz forðast að lenda í sömu sporum og Angela Merkel, forveri hans, sem sagði 2015 þegar bylgja farandfólks og hælisleitenda sagði: Við reddum þessu.

Íslensk yfirvöld ættu að læra af því sem Þjóðverjar gera núna eins og þau fetuðu í spor Merkel með útlendingalögunum árið 2016. Stórhuga áform eru kynnt um nýbyggingar við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Hvers vegna er ekki gerð þar aðstaða til pappírslausrar hraðafgreiðslu á hælisumsóknum eftir fyrstu samtöl? Þá þarf að auðvelda brottvísanir með ódýrari vistun en í dýrasta og fullkomnasta öryggisfangelsi landsins á Hólmsheiði.