Schengen á Suðurnesjum
Gagnrýni á Schengen-aðildina er ekki nýmæli en ítarleg skoðun hefur jafnan leitt til þeirrar niðurstöðu að kostir aðildar séu meiri en gallarnir.
Það er ekki í fyrsta skipti núna sem tekist er á um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra um að auglýsa stöðuna vegna skipulags- og verkefnabreytinga á embættinu. Á árinu 2008 tók ég ákvörðun um slíka auglýsingu við aðskilnað tollgæslu og löggæslu á Keflavíkurflugvelli.
Nú boðar Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (Viðreisn) dómsmálaráðherra breytingar á starfssviði embættisins og að það skuli auglýst. Þá sagði Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri tafarlaust af sér, hann hyrfi frá löggæslustörfum.
Dómsmálaráðherra sagði á alþingi 19. maí að veruleg breyting, veruleg stækkun embættis í þessu tilviki, kallaði á auglýsingu. Hún hefði gert viðkomandi embættismanni ljóst að heimild væri í lögum til að flytja hann í annað embætti, vildi hann ekki sækja um stöðuna aftur. Það gætu allir sótt um þessa stöðu sem á henni hefðu áhuga. Ríkisstjórnin væri í stuttu máli að styrkja lögregluna á Suðurnesjum og landamæraeftirlit verulega með fleiri stoðum, með fleiri störfum og með sterkari lögum. Þetta væri pólitísk hlið málsins sem ráðið hefði ákvörðun sinni.
Verður ekki dregið í efa að hér sé um fullgild efnisleg rök að ræða sem ráðist af pólitísku mati ráðherrans.
Úlfar Lúðvíksson í Spursmálum 23. maí 2025.
Úlfar Lúðvíksson sat fyrir svörum í Spursmálum hjá Stefáni Einari Stefánssyni í þætti sem birtist á vegum Morgunblaðsins og sagt er frá í blaðinu í dag (24. maí). Þar endurtekur Úlfar gagnrýni sína á Schengen-aðild Íslands og finnur henni og Schengen-samstarfinu í heild allt til foráttu en nú 14. júní verða 40 ár liðin frá því að Schengen-samningurinn var undirritaður í samnefndum smábæ í Lúxemborg.
Þegar öll norrænu ríkin utan Íslands höfðu ákveðið aðild að samningnum á 10. áratugnum lögðu Halldór Ásgrímsson (Framsóknarflokki) utanríkisráðherra og Þorsteinn Pálsson (Sjálfstæðisflokki) dómsmálaráðherra áherslu á nauðsyn aðildar Íslands að samstarfinu í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar (Sjálfstæðisflokki). Að lokinni ítarlegri málsmeðferð á alþingi og athugun á hvort stjórnarskráin heimilaði aðildina var hún samþykkt.
Gagnrýni á Schengen-aðildina er ekki nýmæli en ítarleg skoðun hefur jafnan leitt til þeirrar niðurstöðu að kostir aðildar séu meiri en gallarnir.
Hér hefur árum saman verið tekið til varna fyrir Schengen-aðildina og bent á að gagnrýni á hana breyti engu um brotalamir í landamæragæslu hér, hún sé alfarið mál íslenskra yfirvalda. Er verulegt áhyggjuefni að Úlfar Lúðvíksson segi þessa gæslu í molum eftir að hann hefur stjórnað framkvæmd hennar á Keflavíkurflugvelli í fimm ár.
Að þessu sinni verða ekki endurtekin sjónarmið sem ég hef hreyft í áranna rás um nauðsynlegar endurbætur á landamæravörslunni.
Að Úlfar Lúðvíksson skelli skuld á Hauk Guðmundsson, ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins, og Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra og krefjist brottvikningar þeirra í nafni þjóðaröryggis stenst ekki þau skilyrði sem krafist er ákveði ráðherra að auglýsa stöðu í samræmi við lagaheimildir.