20.12.2024 9:50

Sáttamálagerð útvistað til ASÍ

Þessi útvistun verðandi stjórnarflokka á gerð stjórnarsáttmálans til ASÍ er kannski leið formanna flokkanna til að firra sig ábyrgð á honum. 

Í leiðara Morgunblaðsins í dag (20. des.) er minnt á að Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hafi átt beina aðild að myndun ríkisstjórnarinnar og gerð stjórnarsáttmálans sem á að sjá dagsins ljós um helgina. Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ, hafi verið virkur þátttakandi í vinnuhópum stjórnarflokkanna og tekið þátt í að skrifa hinn óbirta stjórnarsáttmála. Jafnframt segir í leiðaranum að forystumenn Samtaka atvinnulífsins (SA) hafi árangurslaust óskað eftir fundi með formönnum verðandi stjórnarflokka.

Telur blaðið það ekki góðar fréttir verði ný ríkisstjórn „einhvers konar útibú frá því mikla friðarheimili ASÍ“. Það rími „að vísu vel við margt það sem Samfylking og Flokkur fólksins höfðu að segja fyrir kosningar, en engan veginn við heitstrengingar Viðreisnar um að flokkurinn tæki engar skattahækkanir í mál“.

Þessi lýsing kemur heim og saman við það sem hér hefur verið sagt nú í vikunni um vinstri kúvendingu Viðreisnar við stjórnarmyndunina. Viðkvæmni málsvara flokksins fyrir því að á þetta sé bent hefur birst í greinum nafnlausra og nafngreindra dálkahöfunda á vefsíðum Viðreisnar, Eyjunni-DV, undanfarna daga.

Screenshot-2024-12-20-at-09.49.34

Í dag skrifar svo nýkjörinn þingmaður Viðreisnar, María Rut Kristinsdóttir, grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: Vinstri eða hægri? Kveinkar hún sér undan ábendingum um að kjósendur hennar og annarra í þingflokki Viðreisnar hafi áreiðanlega ekki átt von á að hún tæki að sér að styðja vinstri stjórn, útbú frá ASÍ, kæmist hún á þing.

María Rut segist hafa barist undir merkjum „frjálslynds miðjuflokks“ í kosningabaráttunni. Að henni lokinni tekur hún sér síðan sæti undir rauðum fána ASÍ og Samfylkingarinnar. Hún segir að sér hafi þótt það „frekar kómískt“ að vera vöruð við hægri eða vinstri hættum. Af grein hennar má hins vegar ráða að nú kárni gamanið þótt hún beri sig mannalega og segi:

„En það sem mestu máli skiptir er að þetta eru flokkar sem eru staðráðnir í að láta verkin tala og mynda hér frjálslynda miðjustjórn. Stjórn sem er starfhæf.“

Þetta er álíka mikil sjálfsblekking og þegar annar málsvari Viðreisnar, Þorsteinn Pálsson, fyrrv. formaður Sjálfstæðisflokksins, heldur því fram að Samfylkingin – Jafnaðarflokkur Íslands sé miðflokkur þegar Viðreisn fer til vinstri og myndar þessa ríkisstjórn á grundvelli sáttmála sem saminn er af starfsmönnum ASÍ.

Aðild ASÍ að myndun þessarar ríkisstjórnar er flokkspólitísk og sýnir skeytingarleysi gagnvart viðurkenndum leikreglum. Nú er horfið aftur fyrir þann tíma að skil urðu á milli Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins á árunum 1940 til 1942. Verður forvitnilegt að sjá fingraför ASÍ á stjórnarsáttmálanum.

Þessi útvistun verðandi stjórnarflokka á gerð stjórnarsáttmálans til ASÍ er kannski leið formanna flokkanna til að firra sig ábyrgð á honum. Inga Sæland veit til dæmis ekki hvað hún fær í staðinn fyrir fráhvarf frá helsta kosningaloforði sínu og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir trúir því að ASÍ sé að mynda frjálslynda miðjustjórn. Kristrún Frostadóttir er með plan sem nú kemur frá ASÍ.