5.10.2023 9:06

Samstaða um utanríkis- og varnarmál

Þá eru einungis 9% Íslendinga á móti aðild Íslands að NATO og tæp 15% á móti varnarsamningnum við Bandaríkin.

Maskína kannaði viðhorf almennings til ýmissa þátta í utanríkisþjónustu Íslands fyrir utanríkisráðuneytið í maí 2023. Niðurstaðan var birt á heimasíðu ráðuneytisins 19. september.

Í könnuninni kom fram að Íslendingar eru sem fyrr jákvæðastir fyrir norrænu samstarfi en alls segjast 87,9 prósent landsmanna jákvæðir gagnvart því að Ísland taki virkan þátt í norrænu samstarfi. Alls segjast 58,5 prósent aðspurðra jákvæð gagnvart aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES-samningins, en 10,9 prósent segjast neikvæð gagnvart honum.

Stuðningur almennings við aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (62,6%) minnkar ögn á milli ára en þess má geta að hann jókst um tæp tuttugu prósentustig í fyrra, þegar rúmlega sjötíu prósent Íslendinga sögðust vera jákvæð gagnvart aðild Íslands að bandalaginu samanborið við rúmlega fimmtíu prósent árið 2021. Það sama á við um viðhorf almennings til varnarsamstarfs Íslands við Bandaríkin, nú segjast 53,7 prósent vera jákvæð í garð samstarfsins, en hlutfallið var 60,7 prósent í fyrra og 43,1 prósent árið 2021.

Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga er andvígur því að Ísland eigi í samstarfi við Rússland á alþjóðavettvangi, eða 84%. Stuðningur við Úkraínu í stríðinu við Rússland er 82% og 36% landsmanna segjast hlynnt því að Ísland veiti Úkraínu beinan hernaðarlegan stuðning.

FMxo4yxXoAQsdg5

Rætt er um niðurstöður könnunarinnar við Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu í dag (5. október). Hann segir athyglivert að þriðjungur þjóðarinnar, eða 36%, sé hlynntur því að Ísland veiti Úkraínu beinan hernaðarlegan stuðning, s.s. með því að greiða fyrir þjálfun hermanna, hergögn eða flutning á hergögnum. Að sama skapi eru 39% andvíg beinum hernaðarlegum stuðningi. Þá vekur athygli að stuðningur þjóðarinnar við beinahernaðarlega aðstoð eykst nokkuð á milli ára, var í fyrra rúmlega 21%.

Kristján Johannessen blaðamaður spyr Baldur hvað gæti skýrt vaxandi stuðning milli ára við beina hernaðarlega aðstoð Íslands og prófessorinn svarar: „Þessi vaxandi stuðningur byggist á þeirri umræðu sem ríkir hér og í Vestur-Evrópu, það er að segja að það skipti sköpum fyrir framtíðarfrið í Evrópu að innrás Rússlands sé hrundið. Og að ekki sé hægt að sætta sig við að Rússland með ofbeldi hrifsi til sín stóran hluta lands.“

Einungis 4% Íslendinga eru andvíg stuðningi Íslands við Úkraínu í stríðinu. Segir Baldur Íslendinga ósjaldan hafa staðið þétt að baki litlum þjóðum sem eru undir járnhæl stærri ríkja.

Þá eru einungis 9% Íslendinga á móti aðild Íslands að NATO og tæp 15% á móti varnarsamningnum við Bandaríkin. Segir Baldur það í takt við þróun annars staðar, varnarmál séu farin að skipta meira máli en áður og fleiri óttast um öryggi sitt.

Þessi afdráttarlausa afstaða þjóðarinnar til þeirra meginmála sem nú ber hæst á vettvangi utanríkis- og varnarmála er mikils virði og styrkir stöðu Íslands í samstarfinu við bandalags- og vinaþjóðir.