1.5.2021 12:58

Samstaða um sundrung

Að sjálfsögðu ber ASÍ að sýna gildi samstöðunnar í verki með því að beita sér fyrir meiri samstöðu aðildarfélaga sinna við gerð kjarasamninga.

Frá því snemma í morgun hafa hljómað 1. maí útvarpsauglýsingar um nauðsyn samstöðu verkalýðsins á þessum degi samhliða kjörorði dagsins: Það er nóg til. Kjörorðið er skýrt á þennan hátt í auglýsingu ASÍ:

„„Það er nóg til“ er orðatiltæki sem flestir Íslendingar þekkja og nota gjarnan þegar gest ber að garði. Fólki er boðið að njóta veitinga með viðkvæðinu „fáðu þér, það er nóg til“. En undirliggjandi meining er ekki síður „ekki vera feimin við að fá ykkur, við viljum deila með ykkur“.

Jafnvel þegar þú heldur að ekki sé nóg til, þá fá hin sér bara aðeins minna svo öll fái eitthvað.“

Sú túlkun liggur beint við að ekki eigi að standa þannig að kjarasamningum að hækkun til þeirra sem minnst fá eigi að leiða til þess að laun hinna hækki einnig, þeir eigi að gefa af sínum hlut.

Í Morgunblaðinu í dag er skýrt frá vorskýrslu kjaratölfræðinefndar, samstarfsvettvangi heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga um kjarasamningalotuna sem hófst árið 2019. Á þessu tímabili hafa laun hækkað almennt um 15,3% og kaupmáttur yfir allan vinnumarkaðinn jókst um 10%. Launaþróun fram í janúar 2021 sýnir að prósentuhækkanir lægri launa hafa hækkað hlutfallslega meira en hærri launin.

Csm_red_solidarity_64b906943eHannes G. Sigurðsson, ráðgjafi stjórnar og framkvæmdastjórnar Samtaka atvinnulífsins er einn skýrsluhöfunda. Hann segir að í skýrslunni sé dregin upp skýrari mynd en áðuraf þeim mikla fjölda kjarasamninga sem hér eru gerðir.

Helsta niðurstaðan er að undirritaðir og samþykktir kjarasamningar voru 320 á tímabilinu frá apríl 2019 til mars 2021. Hannes G. Sigurðsson segir:

„Fjöldi samningsaðila og samninga gerir samningakerfið mjög flókið og skortur á samstöðu veldur því að ferlið tekur langan tíma og ekki eru neinar ýkjur að segja að stöðugar umræður um kjaramál tröllríði íslenska samfélaginu, ólíkt því sem gerist í öðrum löndum. Samningarnir og hóparnir eru svo margir, hagsmunir þeirra ólíkir og ósamrýmanlegir, þannig að togstreita um launastefnu og launahlutföll milli stétta verður viðvarandi, tekur aldrei enda. Samningakerfið er einnig svo sérkennilegt að gerðir eru kjarasamningar fyrir mjög smáa hópa, allt niður í einn til tvo starfsmenn, og væntanlega lítið rætt um þjóðhagsleg markmið við endurnýjun þeirra. Óumdeilt er að Ísland eigi óskorað heimsmet í fjölda kjarasamninga og stéttarfélaga miðað við höfðatölu. Því fer ekki fjarri að fjöldi kjarasamninga sé svipaður á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum þar sem íbúar eru 15 til 30 sinnum fleiri.“

Þessi lýsing rímar alls ekki við þá mynd sem verkalýðshreyfingin dregur upp í auglýsingum sínum í tilefni 1. maí 2021 um að samstaða innan hennar skipti sköpum fyrir farsæld félagsmanna hennar. Að sjálfsögðu ber ASÍ að sýna gildi samstöðunnar í verki með því að beita sér fyrir meiri samstöðu aðildarfélaga sinna við gerð kjarasamninga. Skortur á henni í andstöðu við slagorðið út á við um gildi samstöðunnar veikir verulega trúverðugleika og traust verkalýðshreyfingarinnar.