11.2.2019 10:34

Samskiptabrestur eða kosningasvindl

Þetta er nýstárlegt kenning: VG og Samfylking juku ekki fylgi sitt, þess vegna var þetta ekki kosningasvindl.

Starfsmenn Reykjavíkurborgar stunduðu kosningafikt fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí 2018. Þetta er sagt í tilefni af ákvörðun Persónuverndar um lögbrot borgarstarfsmanna á ábyrgð borgarstjóra og meirihluta hans fyrir kosningarnar (Samfylking, VG og píratar).

Margt hefur verið sagt um málið, til dæmis fullyrt án staðfestrar heimildar að Ellert B. Schram, varaþingmaður Samfylkingarinnar, hafi ritað undir ólögmætt bréf til kvenna 80 ára og eldri og hvatt þær til að kjósa.

Upplýsingafulltrúi borgarinnar sendi frá sér fréttatilkynningu og eintök af útsendum bréfum sunnudaginn 10. febrúar. Þau voru öll óundirrituð og má draga þá ályktun að þannig hafi þau borist viðtakendum.

FA12DA2581B22B9EEBBDEB21AA7DAC72E96C78F6533AAD1B9950879B0D749919_713x0Myndin birtist á visir.is á glöðum degi og sýnir oddvita meirihlutaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur: Líf Magneudóttur VG, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur Viðreisn, Dóru Björt Guðjónsdóttur Pírötum og Dag B. Eggertsson Samfylkingu.

Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri borgarinnar, sem var tengiliðurinn við Persónuvernd og miðlaði ekki nægum upplýsingum til stofnunarinnar segir í fréttatilkynningu borgarinnar „að ásakanir um kosningasvindl sem komið hafa fram í tengslum við umræðu um ákvörðun Persónuverndar séu alvarlegar og meiðandi“. Þetta er rétt mat hjá mannréttindastjóranum. Stóra spurningin er auðvitað hvort þessar ásakanir séu réttmætar.

Á forsíðu Morgunblaðsins er í dag (11. febrúar) rætt við Líf Magneudóttur, borgarfulltrúa og oddvita VG, sem var forseti borgarstjórnar fyrir kosningar 2018.

Hún sagði að stjórnmálamenn treystu embættismönnum og starfsfólki borgarinnar. Kosningaverkefnið hefði verið unnið í samstarfi við Persónuvernd en svo virtist sem einhver brotalöm hefði orðið á samskiptum stofnana. Líf sagði:

„Það er ekki um kosningasvindl að ræða heldur held ég að það sé frekar um samskiptabrest að ræða. Það er fráleitt að vinstriflokkarnir hafi notað þetta til að auka fylgi sitt. VG fékk 2.700 atkvæði og þetta var greinilega ekki lausnin fyrir okkur eða Samfylkinguna, sem líka missti fylgi!“

Þetta er nýstárleg kenning: VG og Samfylking juku ekki fylgi sitt, þess vegna var þetta ekki kosningasvindl.

Sem betur fer skila öll svindl ekki því sem að er stefnt. Meirihluti borgarstjórnar féll í kosningunum í maí 2018. Hann hefði með réttu átt að láta af stjórn borgarinnar. Þá kom hins vegar Viðreisn sem frelsandi engill. Hún bognar ekki við uppsöfnuð hneyksli heldur bítur í skjaldarrendurnar og gerist meðvirk. Má kalla það kosningasvindl?