22.7.2020 10:08

Samsæriskenningar ASÍ-forystu

Við hlið ofsafólksins standa stjórnmálamenn Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokksins. Þeir kynda undir í von um flokkspólitískan ávinning.

Eitt helsta einkenni þjóðfélagsgerðar ríkjanna í Norður-Evrópu er samningsréttur verkalýðsfélaga og viðurkenning á honum. Þetta skilur á milli norður- og suðurhluta Evrópu. Í Norður-Evrópu hafa Norðurlöndin sérstöðu í þessu tilliti og þar hefur náðst sátt um skipan þar sem verkalýðshreyfingin gengur fram til að tryggja félagsmönnum sínum öryggi með samningum sem taka mið af heildarhagsmunum. Einmitt þess vegna er borið traust til hreyfingarinnar.

Íslenska verkalýðshreyfingin hefur sérstöðu. Innan hennar sjálfrar hefur ekki náðst samstaða um hvert jafnvægið eigi að vera. Undanfarna daga hefur þessi sérstaða íslensku hreyfingarinnar skýrst vegna ofsalegrar framgöngu forystu ASÍ, formanns VR, formanns Eflingar-stéttarfélags og verkalýðsforingja á Akranesi.

Við hlið ofsafólksins standa stjórnmálamenn Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokksins. Þeir kynda undir í von um flokkspólitískan ávinning.

Bf0d8171bb-1900x1419_oIcelandair skyldi hóta með því að ríkisvaldið beitti stjórnendur fyrirtækisins fjárhagslegum þvingunum í krafti ríkissjóðs og verkalýðshreyfingin beitti lífeyrissjóðunum til að eyðileggja hlutafjárútboð stjórnar félagsins.

Framkvæmdastjóri ASÍ færði þau rök fyrir boðaðri valdbeitingu að Icelandair hefði „aldrei“ viljað semja við flugfreyjur og „hræðilegast“ væri við „aðgerðir Icelandair“ að þær væru „þaulskipulagðar. Markmiðið var alltaf að reyna að brjóta stéttarfélag flugfreyja á bak aftur og ganga þannig í augun á fjárfestum, einkum erlendum,“ sagði framkvæmdastjórinn laugardaginn 18. júlí í sama mund og lokaviðræður fulltrúa Icelandair og flugfreyja sem leiddu til samninga hófust.

Þegar öfgafullar samsæriskenningar af þessu tagi ráða hjá forystu ASÍ skipar íslenska verkalýðsforystan sér í órafjarlægð frá raunveruleikanum, verður jaðarsett innanlands og öfgahreyfing á norrænum og evrópskum vettvangi.

Formaður VR kiknaði fljótt undan gagnrýni félagsmanna sinna og reynir að tala sig frá hótunum um misbeitingu lífeyrissjóðs félagsmanna sinna. Skaðinn er þó skeður og félagsmenn VR hljóta að átta sig á að gagnslaust er að hafa einhvern Ragnar Reykás í forystu.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, reynir að klóra í bakkann í Morgunblaðs-grein í dag (22. júlí). Hún talar þar um „álitsslag atvinnurekenda við verkalýðshreyfinguna“, hvað sem það nú þýðir. Haldi þingmaðurinn að stjórnendur Icelandair bjargi lífi félagsins með áróðursstríði við flugfreyjur sýnir það ekki annað en skilningsleysi á alvöru málsins. Þá reynir Helga Vala að skipta um umræðuefni með því að rekja sögu og afrek íslenskrar verkalýðshreyfingar.

Vissulega getur verið gott að ylja sér við minningar liðinna ára á erfiðum stundum. Samtíminn krefst þess hins vegar að forystumenn lifi ekki í heimi eigin samsæriskenninga. Verstu óvini íslenskrar verkalýðshreyfingar á líðandi stundu er að finna í forystu hennar sjálfrar og stjórnmálaflokkanna sem ýta undir öfgasjónarmiðin. Það er auðvelt að rífa niður traust sem áunnist hefur.