1.3.2019 9:34

Samráðsgáttin kallar á rök - ekki vitlausar upphrópanir

Samráðsgáttin gerir einnig kröfur til þeirra sem vilja hafa áhrif innan stjórnkerfisins. Þar vega málefnaleg rök þyngra en upphrópanir og hótanir í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum.

Umræður hafa orðið líflegri á mörgum sviðum eftir að stjórnarráðið opnaði svonefnda samráðsgátt sína . Ávefsíðunni segir um hana :

„Markmið Samráðsgáttarinnar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila.“

Ríkisstjórnin samþykkti 10. mars 2017 þegar Bjarni Benediktsson var forsætisráðherra að opna samráðsgáttina og er hún vistuð í forsætisráðuneytinu. Nú segir að þar sé 21 mál opið til samráðs við almenning.

Þetta leiðir til þess að öllum gefst kostur á að segja álit sitt á fyrirhugaðri lagasetningu og setja fram rök sem tekin verða til athugunar við lokagerð t.d. lagafrumvarpa áður en þau fara fyrir þing. Eitt stórmál er í slíku ferli núna til 6. mars, það er frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna dóma EFTA-dómstólsins og hæstaréttar varðandi frosna kjötið, varnir okkar Íslendinga í þágu matvælaöryggis sem standast ekki lög. Frumvarpið er vandað að allri gerð og í greinargerð þess er að finna sögu þessara mála. Hún er lærdómsrík meðal annars varðandi nauðsyn þess að gæta íslenskra hagsmuna á réttu stigi mála á EES-vettvangi. Árið 2005 var lögð megináhersla á að banna innflutning á lifandi dýrum og fékkst það viðurkennt.

Samráðsgáttin verður vafalítið til þess að stjórnvöld birta ítarlegri og aðgengilegri greinargerðir með málum sem talin eru vekja umræður. Hún stuðlar að því að ekki sé unnt að skjóta sér á bak við skort upplýsinga á stigi mála áður en þau eru lögð fyrir þing. Þessar umræður á samráðsstigi ættu einnig að auðvelda þingmönnum að móta sér skoðun á álitaefnum við lokaafgreiðslu mála.

ConsultSamráðsgáttin gerir einnig kröfur til þeirra sem vilja hafa áhrif innan stjórnkerfisins. Þar vega málefnaleg rök þyngra en upphrópanir og hótanir í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum. Eitt þeirra mála sem ekki er komið í samráðsgátt snertir 3ja orkupakkann svonefnda en um hann hefur verið sögð meiri vitleysa í rúmt ár hér á landi en flest önnur og menn nýtt vitleysuna til að fara út fyrir öll skynsamleg mörk í lýsingum á Evrópusambandinu eins og sjá má af þessum orðum Harðar Kristjánssonar, ritstjóra Bændablaðsins, málgagns Bændasamtaka Íslands. Draga orð hans því miður úr trúverðugleika blaðsins í umræðum um innflutning á matvælum. Hörður segir meðal annars í Bændablaðinu sem dagsett 28. febrúar 2019:

„Án efa hlýtur Hitler gamli að skrækja af fögnuði yfir þessari þróun [innan ESB], sitjandi á fjósbitanum hjá höfðingjanum í neðra. Það sem honum tókst ekki með sínum milljónaher gráum fyrir járnum, er jakkaklæddum skriffinnum í Brussel nú að takast með penna eina að vopni. Einhvern tíma hefðu menn örugglega slegið svona nokkru á forsíður blaða undir fyrirsögninni „LANDRÁÐ,“ en uss, uss, svona tala menn ekki í návist Guðs vors ESB.“

Hér hefur áður verið sagt að vitni menn til Hitlers máli sínu til stuðnings geri þeir sig endanlega marklausa í opinberum umræðum. Það hefur gerst hér hjá ritstjóra Bændablaðsins.