22.6.2022 10:13

Samkeppnishæfni, EES og stöðlun

Fyrir þá sem hafa farið í saumana á aðild Íslands að EES kemur niðurstaða lögmannsins um innleiðingar ekki á óvart. Stöðlun skiptir samhliða lagareglum miklu fyrir samkeppnishæfni.

IMD-viðskiptaháskólinn í Sviss birti nýlega árlegan lista sinn um samkeppnishæfni ríkja. Ísland bætir stöðu sína á milli ára og færist upp um fimm sæti, úr 21. í 16. sæti. Í ritstjórnargrein ViðskiptaMoggans í dag (22. júní) segir að það spilli samkeppnishæfninni að hér séu EES-reglur innleiddar með sér-íslenskum, íþyngjandi viðbótum.

Í sama tölublaði ViðskiptaMoggans birtist grein eftir Magnús Óskarsson hrl. undir fyrirsögninni: Er hægt að treysta því að EES-reglur séu innleiddar á Íslandi? Niðurstaða hans er að sé samræming íslenskrar löggjafar og EES-reglna skoðuð ofan í kjölinn sé „ekki víst að hún sé fullkomin og það veldur óöryggi í fjárfestingum og öðrum viðskiptum milli landa“.

Í flestum tilvikum sé innleiðing EES-reglna rétt eða mjög nærri lagi. Þó sé betra að leita af sér allan grun. Erlendur aðili sem hyggi á viðskipti hér geti ekki gengið að því alveg vísu að regluverk EES sé að öllu leyti í gildi hér á landi.

Fyrir þá sem hafa farið í saumana á aðild Íslands að EES kemur þessi niðurstaða lögmannsins ekki á óvart. Að þessu vandamáli er vikið í tveimur skýrslum sem samdar hafa verið með þátttöku minni, Skýrslu starfshóps um EES-samstarfið, september 2019, og landbúnaðarstefnunni Ræktum Ísland!, ágúst 2021.

Shutterstock_73978708Í EES-skýrslunni er sérstaklega varað við svonefndri „gullhúðun“ EES-reglna, það er að nota þær til að smeygja inn heimasmíðuðum ákvæðum. Í ábendingum skýrsluhöfunda segir meðal annars:

„Stæðu Íslendingar utan lagasamstarfs á EES-vettvangi og ætluðu að starfa í krafti heimasmíðaðra reglna yrði mikil hætta á einangrun, stöðnun og afturför í þjóðlífinu öllu.“ Það verður að þýða og lögfesta EES-reglur á þann veg að Íslendingar séu í raun aðilar að sameiginlegum markaði og annarra þjóða menn geti treyst því.

Í Ræktum Ísland! er vakið máls á vanda sem sem Magnús Óskarsson lýsir á þann veg að EES-reglur séu innleiddar, t.d. með sérstökum lagabálki, en af einhverjum ástæðum ekki eins og vera ber eða einhverjum hluta þeirra sé sleppt. Við þetta geri kannski enginn athugasemdir svo árum skipti eða þar til „einhver fer að reka sig á þær, að í ljós kemur að innleiðingin var ekki fullkomin“.

Niðurstaðan á skoðun EES-gerða sem varða landbúnað var að innleiðing þeirra hér sneri frekar að skyldum framleiðenda en réttindum. Það er ríkt einkenni EES-reglnanna að leitað sé mótvægis gegn skyldum. Sé meðalhófs ekki gætt með því til dæmis að sleppa einhverjum hluta reglna í innleiðingu þeirra getur það skert réttindi og samkeppnishæfni.

Í Fréttablaðinu í dag birtist grein um efni sem snýr beint að samkeppnisstöðunni. Hún er eftir Helgu Sigrúnu Harðardóttur, framkvæmdastjóra Staðlaráðs Íslands. Það er eins og rauður þráður bæði í skýrslunni um EES-samninginn og Ræktum Ísland! að án staðla og alþjóðlegra vottana sé stefnt í einangrun og stöðnun.

Helga Sigrún minnir á að stöðlun sé sammælt viðmið hagaðila, unnin eftir verkferlum sem tryggja að raddir allra, og besta mögulega þekking, verði inntak þeirra. Með notkun staðla sé tryggt að besta fáanlega sérfræðiþekking rati inn í okkar litla hagkerfi. Sú trygging sé beinlínis byggð inn í EES samninginn.

Vandinn er sá að hér getur dregist von úr viti að skapað sé svigrúm, fjárhagslegt og annað, til að tryggja að íslenskir staðlar falli að alþjóðlegum kröfum. Þá hefur innlend faggilding einnig átt undir högg að sækja. Skipulegar aðgerðir á þessum sviðum auka samkeppnishæfni.