28.9.2023 10:36

Samkeppniseftirlit í krísu

Einn alþingismaður hefur lýst áhyggjum sínum yfir að þetta mál kunni að skaða samkeppniseftirlitið, píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Fullvissaði viðskiptaráðherra hana um að svo yrði ekki ­– stjórn eftirlitsins myndi sjá til þess! 

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála birti þriðjudaginn 19. september alvarlegan áfellisdóm yfir starfsháttum samkeppniseftirlitsins (SKE) sem lagt hafði 3,5 m. kr. dagsektir á útgerðarfélagið Brim til að knýja á um afhendingu gagna sem eftirlitið krafðist í verktöku fyrir matvælaráðuneytið vegna rannsóknar undir forsjá matvælaráðherra sem ber allt yfirbragð flokkspólitískrar viðleitni til að ýta undir tortryggni í garð sjávarútvegsfyrirtækja.

Áfrýjunarnefndin segir að gerð verktakasamningsins hafi verið lögbrot. Samkeppniseftirlitið hafi brotið gegn hlutverki sínu sem sjálfstætt stjórnvald. Þá hafi stofnunin því síður „heimild til að beita valdheimildum sínum og þvingunarúrræðum eins og dagsektum til að knýja á um afhendingu gagna vegna slíkra athugana og skýrsluskrifa“.

2fc5e44e448d8678d0b14d048bea3cd0

Frumskilyrði þess, fyrir rúmum 30 árum, að Íslendingar teldust hæfir til aðildar að innri markaði Evrópu með aðild að EES var að um 60 ára gamalt verðlagskerfi yrði aflagt og þess í stað komið á fót stofnun sem tryggði samkeppni á markaðnum. Þá var samkeppnisstofnun komið á fót, hún varð að samkeppniseftirlitinu árið 2005. Um er að ræða lykilstofnun til að tryggja heiðarlega samkeppni innan lands og traust á henni út á við.

Þrátt fyrir lögbrotin láta forráðamenn SKE með stuðningi ráðherra málaflokksins, viðskiptaráðherra, og matvælaráðherra eins og ekkert sé sjálfsagðra en eftirlitið hristi bara áfellisdóminn af sér og haldi sínu striki. Þetta gerist þótt jafnframt liggi fyrir, skjalfest, að forráðamenn eftirlitsins og matvælaráðuneytisins eru að minnsta kosti tvísaga um hvernig að gerð ólögmæta verktakasamningsins var staðið.

Í Morgunblaðinu í dag, 28. september, og þætti þess Dagmálum ræðir Andrés Magnússon við Guðmund Kristjánsson, forstjóra Brims. Hann segir meðal annars:

„Ég vildi að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) færu í þetta fyrir okkur, en það virðist vera þannig að Páll Gunnar [Pálsson forstjóri SKE] og SKE sé ógnarstjórn í samfélaginu. Það þorir enginn að anda á hann. […] Ég upplifi það þannig að ef einhver segir eitthvað við Samkeppniseftirlitið, þá er hann lagður í einelti, og það þorir enginn að segja neitt.“

Blaðamaður spyr Guðmund hvort hann óttist hefndir og svarið er:

„Auðvitað óttast ég … en samt kannski ekki núna, það er gott að vera búinn að segja þetta. Ég finn það bara núna að mér líður miklu betur að hafa sagt þetta í myndavél, þá er þetta bara til.“

Þessi orð forstjórans gefa sýn inn í ógnaranda sem SKE hefur tekist að skapa um sig í áranna rás og á ekkert skylt við gagnsæið í opinberri stjórnsýslu sem meðal annars matvælaráðherra telur skapa traust, megi marka grein hennar í Morgunblaðinu 26. september þar sem hún fagnar því að SKE ætli að halda áfram rannsókn sinni fyrir hana þrátt fyrir ólögmæti verktakasamningsins.

Einn alþingismaður hefur lýst áhyggjum sínum yfir að þetta mál kunni að skaða SKE, píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Fullvissaði viðskiptaráðherra hana um að svo yrði ekki ­– stjórn SKE myndi sjá til þess!