13.7.2018 10:04

Samkeppniseftirlit gegn sjálfu sér

Málshöfðunin grefur undan öllu eftirslitsferli samkeppnismála á sama hátt og afstaða samkeppniseftirlitsins til ríkisútvarpsins gerir.

Í sumarhefti Þjóðmála er birtur kafli úrt ræðu eftir Ara Edwald, forstjóra MS, þar sem hann ræðir um samkeppniseftirlitið. Ari segir meðal annars:

„Lengst af var Ríkisútvarpið helsti keppinautur Stöðvar 2 eins og flestir vita. Það var stál í stál. Í samkeppni um dagskrárefni, samkeppni um starfsfólk, samkeppni um starfsfólk, samkeppni um auglýsendur og samkeppni um áhorf.

En ekkert breytti því að Samkeppniseftirlitið leit áfram svo á að Ríkisútvarpið væri ekki á sama markaði og Stöð 2 eða Skjárinn sem áskriftarsjónvarp. Þá töldust Stöð 2 og Skjárinn einráð á markaðnum fyrir áskriftir. Báðar þessar einkastöðvar voru þó ávallt að miklu leyti opið sjónvarp. Það breytti engu í þessum efnum þegar internetið og gervitunglin höfðu brotið öll landamæri á bak aftur. Þá töldust Stöð 2 og Skjárinn enn einráð á markaðnum að áliti eftirlitsins.[...] Ekki að undra að Netflix hafi náð jafn mörgum áskrifendum hér á landi og þessi tvö íslensku fyrirtæki [Stöð 2 og Sjónvarp Símans] til samans.“

Þessi gagnrýni Ara Edwalds eru enn til marks um að samkeppniseftirlitið fer mildum höndum um ríkisútvarpið eins og vikið hefur verið að hér áður þegar litið er til afstöðu þess til ryksugunar ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í tengslum við HM. Gagnrýni Ara á samkeppniseftirlitið lýtur einnig að þeirri ákvörðun stjórnenda eftirlitsins að sætta sig ekki við niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem féllst ekki á ákvörðun eftirlitsins og fara með málið fyrir dómstóla. Ari líkir áfrýjunarnefndinni við æðri dómstól enda á hún að vera öryggisventill fyrir þá sem sætta sig ekki við niðurstöðu samkeppniseftirlitsins. Ari segir að málatilbúnaður eftirlitsins líkist því nánast að héraðsdómur færi í mál við landsrétt eða hæstarétt ef niðurstöðu í héraðsdómi væri breytt eða hafnað á æðra dómstigi.

Af hálfu stjórnenda samkeppniseftirlitsins er því haldið fram að málaferlin séu nauðsynleg vegna þess að áfrýjunarnefndin hafi ekki sömu víðtæku skyldur varðandi gæslu almannahagsmuna og eftirlitið hefur. Þetta eru óskiljanleg rök. Málshöfðunin grefur undan öllu eftirslitsferli samkeppnismála á sama hátt og afstaða samkeppniseftirlitsins til ríkisútvarpsins gerir.

Ef til vill er markmið málshöfðunarinnar að sýna þeim sem sætta sig ekki við niðurstöðu eftirlitsins að málskot til áfrýjunarnefndarinnar sé tilgangslaust.

Sérkennilegt er að stofnun sem verður að njóta álits til að úrskurðir hennar séu virtir skuli sjálf gera aðför að eigin eftirlitsaðila, áfrýjunarnefndinni.