29.9.2022 10:41

Samkeppni í lagakennslu

Einn liður í nýsköpun háskólanáms á þessum árum var að stuðla að þróun námsgreina sem aðeins höfðu verið kenndar í Háskóla Íslands (HÍ) í öðrum skólum. Þar þótti mesta byltingin felast í lagakennslu utan HÍ.

Í umræðum um skólamál komast menn stundum ekki lengra en að nefna orðið „samkeppni“, það vekur svo sterkar tilfinningar að frekari rökræður verða tilgangslausar. Andstaða við markaðslögmálin er sterk hjá mörgum sem líta á sig sem málsvara öflugra skóla. Hér tókst að leyfa þessum lögmálum að skjóta rótum á háskólastigi.

Með háskólalögum frá 1. janúar 1998 var heimilað, að auk ríkisrekinna háskóla, sem væru sjálfstæðar ríkisstofnanir samkvæmt sérstökum lögum um hvern skóla, gætu starfað háskólar sem væru sjálfseignastofnanir auk þess gætu einkaaðilar stofnað háskóla að fengnu samþykki menntamálaráðherra. Fljótlega komu þrír einkareknir háskólar til sögunnar: Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík og Listaháskóli Íslands.

Fjórir ríkisreknir háskólar störfðu á þessum árum undir handarjaðri menntamálaráðuneytisins samkvæmt sérstökum lögum um hvern og einn: Háskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Tækniháskóli Íslands. Áttundi háskólinn var á vegum landbúnaðarráðuneytisins á Hvanneyri.

Með samruna hafa Kennaraháskólinn og Tækniháskólinn horfið úr sögunni. Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri og Háskólinn á Hólum falla nú eins og aðrir háskólar undir háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðuneytið.

Er ekki nokkur vafi á því að lagasetningin og markvisst átak einkaaðila til að stofna þrjá háskóla og ýta þeim myndarlega úr vör á fáeinum árum sköpuðu ný og spennandi tækifæri fyrir nemendur. Skólarnir lögðu sig meira fram en áður gagnvart nemendum, enda fengu þeir opinbert fé í samræmi við þann fjölda nemenda sem fór í próf. Auk þess opnuðust á þessum árum nýjar námsleiðir með nýrri markaðsrekinni tölvu- og fjarskiptatækni og fjarnámi.

HrÚr kennslustund í lagadeild HR.

Einn liður í nýsköpun háskólanáms á þessum árum var að stuðla að þróun námsgreina sem aðeins höfðu verið kenndar í Háskóla Íslands (HÍ) í öðrum skólum. Þar þótti mesta byltingin felast í lagakennslu utan HÍ.

Í dag er málþing í Háskólanum í Reykjavík þar sem fagnað er 20 ára afmæli deildarinnar, hún hóf starf árið 2002 og fyrstu nemendur voru útskrifaðir þaðan árið 2005.

Eiríkur Elís Þorláksson hefur verið forseti lagadeildar HR frá 2019 og í tilefni tímamótanna nú er rætt við hann í Fréttablaðinu í dag (29. september). Hann segir:

„Með heilbrigðri samkeppni milli háskóla og auknum rannsóknum á sviði lögfræðinnar hefur íslensk lögfræði eflst sem fræðigrein.“

HR tileinkaði sér aðrar aðferðir við lagakennslu en einkenndu íhaldssemina í HÍ. Telur Eiríkur Elís „að tilkoma lagadeildar HR hafi svo um munar eflt laga- kennslu svo og rannsóknir á Íslandi.“

Huga ætti að því á fleiri gamalgrónum fræðasviðum í háskólakennslu hér en lögfræði að virkja einkaframtakið og brjóta upp ríkishyggjuna, þar stendur næst að huga að heilbrigðisvísindunum og ríkisviðjum heilbrigðismálanna.