11.2.2023 11:01

Samkeppni afurðastöðva

Samkeppniseftirlitið lagðist gegn frumvarpi sem matvælaráðherra kynnti nýlega. Dró ráðherra það til baka og er nú unnið að smíði nýs lagatexta. 

Í landbúnaðarstefnunni Ræktum Ísland! leggjum við Hlédís Sveinsdóttir til að skoðaðar séu hugmyndir um að lækka verulega sláturkostnað bæði í sauðfjár- og stórgripasláturhúsum með sameiningu í rekstri og fækkun húsa.

Við teljum að hér á landi hafi ekki verið litið nægjanlega til þess við mótun stefnu í þessu efni og lagasetningu að innan EES – á sameiginlega evrópska markaðnum – gildi samkeppnisreglur aðeins um afmörkuð svið landbúnaðar. Í Noregi og innan ESB séu almennari og rýmri ákvæði í löggjöf en hér, þau víki til hliðar ákvæðum samkeppnislaga standi þau í vegi fyrir framkvæmd landbúnaðarstefnu stjórnvalda.

Heyrullur_a_tuni

Hér hefur alþingi aldrei samþykkt landbúnaðarstefnu, hún liggur fyrir gloppótt og brotakennd í ýmsum lögum. Núverandi ríkisstjórn setur sér hins vegar það markmið í sáttmála sínum að leggja tillögur að landbúnaðarstefnu fyrir alþingi og taka mið af landbúnaðarstefnunni Ræktum Ísland!

Samkeppniseftirlitið lagðist gegn frumvarpi sem matvælaráðherra kynnti nýlega. Dró ráðherra það til baka og er nú unnið að smíði nýs lagatexta. Vegna þessa hafa orðið deilur sem kynnast má meðal annars í greinum i Morgunblaðinu.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri samkeppniseftirlitsins, reið á vaðið 2. febrúar og varði neikvæða afstöðu stofnunar sinnar meðal annars með vísan til þess að í frumvarpsdrögum matvælaráðherra hefði aðeins verið gert ráð fyrir að kjötafurðastöðvar yrðu að hluta í eigu bænda. Samkeppnisundanþágur í Noregi og ESB kæmu íslenskum kjötafurðastöðvum að litlu gagni, þar væru þær í eigu bænda en ekki hér.

Sigurjón Rúnar Rafnsson, formaður Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, segir í grein 9. febrúar að hvað sem líði reglum í Noregi eigi þær ekki við um ESB-ríki. Undanþágur fari eftir aðstæðum í hverju landi fyrir sig. Til dæmis í Svíþjóð og Finnlandi sé ekki gerð ófrávíkjanleg krafa um að afurðastöðvar séu að fullu eða meirihluta í eigu bænda, nægjanlegt sé að afurðastöðvar lúti stjórn bænda.

Það er rétt hjá Sigurjóni Rúnari að innan ESB gildir ekki sérgreint skilyrði um að landbúnaðarfyrirtæki séu í eigu bænda eða samtaka bænda til að njóta sérreglna um samkeppni. Á hinn bóginn vill ESB stuðla að því bændur efli samvinnu sín á milli og starfi innan sameiginlegra samtaka. Með því að sameina krafta sína lækki þeir framleiðslukostnað og auki samkeppnishæfni sína á markaðnum.

Ragnar Árnason, fyrrverandi hagfræðiprófessor, segir réttilega í Morgunblaðinu í dag (11. febrúar):

„Samkeppniseftirlitið á auðvitað að stuðla að sem lægstu vöruverði til neytenda. Samkeppni er aðeins ein leið að þessu marki. Lægri framleiðslukostnaður er önnur leið. Samkeppni hversu mikil sem hún er getur aldrei komið vöruverði niður fyrir framleiðslukostnað. Sé framleiðslukostnaður hins vegar lágur, t.d. vegna þess að stærðarhagkvæmni hefur verið nýtt, getur vöruverð orðið lægra. Sé vöruverð hærra en það þarf að vera vegna skorts á samkeppnisaðhaldi er það hlutverk Samkeppniseftirlits að gæta þess að svo verði ekki.“