Samherjamál breytist í símamál
Svo virðist sem frumkvæðisathugun stjórnarandstöðunnar vegna hæfis Kristjáns Þórs og Samherjamálsins, eins og Namibíumálið er gjarnan kallað hér, ætli að breytast í nýtt símamál.
Árum saman skaut upp efasemdum um efni símtals milli Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, sem snerti lán til Kaupþings á örlagastundu í bankahruninu í byrjun október 2008. Alls kyns samsæriskenningar voru á kreiki vegna símtalsins.
Oftar en einu sinni var rætt um símtalið í þingsal og nefndum alþingis. Fyrir tilviljun var símtalið hljóðritað og einn góðan veðurdag, mörgum árum eftir atvikið, birtist útskrift á símtalinu. Síðan hefur ekki verið á það minnst.
Í sjónvarpi ríkisins var í haust fluttur sjónvarpsþáttur þar sem Samherji var borinn þungum sökum vegna óeðlilegra viðskiptahátta í Namibíu, að minnsta kosti á íslenska mælistiku. Síðan hefur stjórnarandstaðan hundelt Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis ræðir við Kristján Þór Júlíusson miðvikudaginn 22. janúar. (Mbl.is Árni Sæberg.)
Til að slá sér upp og komast í fréttir á kostnað ráðherrans hóf píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis, „frumkvæðisathugun“ á hæfi Kristjáns Þórs sem ráðherra. Var haldinn opinn fundur í nefndinn í morgun (22. janúar). Í frásögn blaðamanns mbl.is, Erlu Maríu Markúsdóttur, af fundinum segir:
„Nokkrir nefndarmenn spurðu Kristján út í símtal hans við Þorstein Má Baldvinsson, þáverandi forstjóri Samherja, þar sem ráðherra spurði hvernig Samherji ætlaði að bregðast við málinu.
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði hvort Kristján hefði, í umræddu símtali, verið að tala við Þorstein sem gamall vinur eða sem ráðherra, eða jafnvel hvort tveggja í senn. „Er það kannski kjarni málsins, er það í þessu sem kristallast ákveðið vanhæfi?“ spurði Guðmundur Andri.
Kristján Þór sagði þá að stundum gæti það verið erfitt að greina á milli þess hvort verið er að tala við vin eða forsvarsmann fyrirtækis. „Þetta er eins og þegar við erum að tala saman,“ sagði Kristján og vísaði í að þeir Guðmundur hafa þekkst frá námsárum sínum og síðar í þingmennskunni.
„En ég greini ekki á milli þessarar tilveru. Þú ert einn og sami maðurinn og ég er einn og sami maðurinn. Þú leggur ekkert mat á það við hvorn hluta sjálfsins þú ert að tala,“ sagði Kristján.“
Svo virðist sem frumkvæðisathugun stjórnarandstöðunnar vegna hæfis Kristjáns Þórs og Samherjamálsins, eins og Namibíumálið er gjarnan kallað hér, ætli að breytast í nýtt símamál. Það „kristallist ákveðið vanhæfi“ í símtali milli manna sem þekkjast þegar hart er sótt að öðrum þeirra.
Í fréttinni á mbl.is segir einnig:
„Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður nefndarinnar, spurði sömuleiðis út í símtalið og þá vildi hún einnig vita hvort Kristján hefði rætt málefni Samherja við einhverja dagana sem liðu milli þess sem Stundin hafði samband við hann og þar til Kveikur var sýndur, en það var um vikutími.
„Ég hafði samband og ræddi þetta mál við fólk, eðlilega, og geri mínum nánustu samstarfsmönnum í stjórnmálum grein fyrir því sem er að koma upp. Þarna er til dæmis að koma upp mál sem snýr að einhverjum fundi sem ég hef ekki hugmynd um,“ sagði Kristján og vísaði í fund sem var í höfuðstöðvum Samherja í ágúst 2014. Kristján hefur áður sagt að hann hafi hvorki verið boðaður né sótt nokkurn fund þá um árið, heldur hafi hann verið beðinn um að taka í höndina á nokkrum einstaklingum er hann var staddur á skrifstofu Samherja.“
Málatilbúnaðurinn á hendur Kristjáni Þór Júlíussyni í þessu máli er svo illa ígrundaður að erfitt verður að skapa stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis að nýju þann sess sem henni ber að hafa. Sýnir þetta hve varhugavert getur verið að fela stjórnarandstæðingum formennsku í nefndum alþingis þótt slíkt geti gefið góða raun í þjóðþingum annarra landa.