27.5.2021 10:40

Samherjadeila í fúafeni

Allt frá fyrsta degi liggur fyrir að stjórnendum Samherja er ekkert um þessi afskipti af málefnum sínum gefið. Þeir vantreysta fréttamönnum ríkisútvarpsins og segja þá ekki fara með rétt mál.

Umræður um mikilvæg málefni þróast hér oft á sérkennilegan hátt. Þetta sannast enn í svonefndu Samherjamáli sem á rætur í Namibíu og uppljóstrunum í þætti ríkissjónvarpsins, Kveiki, um að Samherji hefði ekki staðið að viðskiptum þar á lögmætan hátt. Allt er þetta til rannsóknar hér á landi og í Namibíu og jafnvel víðar í heiminum enda er Samherji alþjóðlegt sjávarútvegsfyrirtæki með mörg járn í eldinum.

Allt frá fyrsta degi liggur fyrir að stjórnendum Samherja er ekkert um þessi afskipti af málefnum sínum gefið. Þeir vantreysta fréttamönnum ríkisútvarpsins og segja þá ekki fara með rétt mál. Hefur Samherji snúist hart til varnar gegn hverjum sem hann telur sækja að sér, svo hart að nú snýst málið um hvort íslenskir blaðamenn séu metnir að verðleikum eða gengið sé of nærri þeim. Ný víglína hefur myndast í málinu og standa andstæðingarnir gráir fyrir járnum hvor gegn öðrum: Samherjamenn og liðsmenn hans annars vegar og fréttamenn ríkisútvarpsins hins vegar með styrk frá áhrifamönnum í fjölmiðlum og stjórnmálum. Enginn stjórnmálamaður tekur upp hanskann fyrir Samherja en fjölmargir fyrir fréttamennina.

1597426161_samherji_dalvikAthafnasvæði og skip Samherja í Dalvíkurhöfn (mynd: samherji.is).

Miðað við efnistök leiðarahöfunda Fréttablaðsins hefur Samherjamálið nú breyst í baráttu fjölmiðlamanna fyrir eigin tilveru. Aðalheiður Ámundadóttir, píratinn meðal leiðarahöfunda blaðsins, segir 26. maí:

„Það hefur lengi verið tíska á Íslandi að hata blaðamenn. Það hefur ekki þótt neitt tiltökumál að tala illa um þá, gera þeim upp annarlegar hvatir, uppnefna þá, klaga eða stefna þeim fyrir dómstóla fyrir litlar eða engar sakir.

Þetta er landlæg íþrótt. Stjórnmálamenn saka blaðamenn um að gera upp á milli stjórnmálaflokka eða pólitískra andstæðinga í sama flokki. Atvinnurekendur og áhrifafólk hótar lögsóknum. Almennir borgarar hæðast að blaðamönnum á samfélagsmiðlum, kalla þá leigupenna og gera þeim upp annarleg sjónarmið. Ungt og upprennandi fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í faginu er kallað blaðabörn í háðungarskyni. Embættismenn og starfsmenn hins opinbera eru ekki undanþegnir því að líta niður á blaðamenn, telja fyrirspurnir þeirra til hnýsni og starf þeirra almennt til óþurftar. Svör við fyrirspurnum og almenn liðlegheit eru eftir því.“

Menningarvitinn í leiðarahópnum, Kolbrún Bergþórsdóttir, segir 27. maí:

„Skæruliðadeildin [á vegum Samherja] hefur stundað ljótan leik en einnig opinberað ótrúlega vitleysislegan hugsunarhátt. Dæmi um það eru hugmyndir um að hafa afskipti af formannskosningu í Blaðamannafélagi Íslands með því að hafa samband við ritstjóra einkarekinna fjölmiðla og fá þá til að vara sitt fólk við að kjósa starfsmann RÚV. Þessi hugmynd lýsir fullkomnu skilningsleysi á fjölmiðlum og starfi þeirra.“

Hver hefði spáð því fyrir nokkrum mánuðum að gagnrýnar fréttir um viðskipti Samherja í Namibíu færu í þennan farveg? Ástæða er til að velta fyrir sér hvers vegna og hvernig það gerðist. Tókst skæruliðadeildinni svonefndu að draga andstæðinga sína út í fúafen?