29.9.2019 12:03

Samgöngusáttmáli rýfur vítahring

Sáttmálinn setur þó niður ágreining sem hefur staðið nauðsynlegum ákvörðunum fyrir þrifum og er það vissulega mikils virði.

Þáttaskil urðu í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu fimmtudaginn 26. september 2019 þegar fulltrúar sveitarfélaganna og ríkisins rituðu undir sáttmála um hvernig staðið skuli að framkvæmdum á næstu árum fyrir 120 milljarða króna. Í kynningu á sáttmálanum segir:

„Á næstu 15 árum verður ráðist í einar umfangsmestu samgönguframkvæmdir sögunnar til að flýta úrbótum á höfuðborgarsvæðinu, sem að óbreyttum framkvæmdahraða tækju allt að 50 ár. Mengun vegna svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda hefur stóraukist. Ef fram heldur sem horfir og ekkert yrði að gert mun bílaumferð aukast um að minnsta kosti 40% á næstu 15 árum. Til að mæta þessu er nauðsynlegt að flýta samgönguframkvæmdum.

Heildarfjármögnun samgönguframkvæmda á svæðinu á tímabilinu er 120 milljarðar. Ríkið mun leggja fram 45 milljarða og sveitarfélög 15 milljarða. Gert er ráð fyrir að sérstök fjármögnun standi straum af 60 milljörðum kr. Hún verður tryggð við endurskoðun gjalda af ökutækjum og umferð í tengslum við orkuskipti eða með beinum framlögum við sölu á eignum ríkisins.

Á tímabilinu verða 52,2 milljarðar lagðir í stofnvegi, 49,6 milljarðar í innviði Borgarlínu og almenningssamgöngur, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir. Þá verður þegar í stað ráðist í að innleiða stafræna umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu.“

SamgongusattmaliFrá undirritun samgöngusáttmálans í Ráðherrabústaðnum. Frá vinstri bæjarstjórar Mosfellsbæjar, Garðabæjar, borgarstjóri, forsætisráðherra, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, samgönguráðherra, fjármálaráðherra, bæjarstjórar Seltjarnaness og Kópavogs. Mynd: Samgönguráðuneytið.


Margt getur vissulega gerst á 15 árum og á tímum örra breytinga vegna loftslagsmála, gervigreindar og ökumannslausra raforku-bifreiða sjá menn ekki allt fyrir. Sáttmálinn setur þó niður ágreining sem hefur staðið nauðsynlegum ákvörðunum fyrir þrifum og er það vissulega mikils virði. Stöðnun í samgöngumálum hefur leitt til hnignunar og biðraðamenningar í Reykjavík, helstu táknmyndar hugmyndafræði sem stangast á við heilbrigða skynsemi. Vonandi tekst með þessu að brjótast út úr þeim vítahring sem meirihlutinn í Reykjavík undir forystu Dags B. Eggertssonar hefur skapað.

Fyrir borgarstjórnarkosningar árið 2002 bar Sundabrautina hátt. Hefði hugur fylgt máli að kosningunum loknum hefði mátt hrinda framkvæmdum af stað. R-listinn hafði þó ekki burði til þess. Nú er lagningu brautarinnar að minnsta kosti frestað fram til 2034. Í huga margra eiga ákvarðanir um Sundabraut og framtíð Reykjavíkurflugvallar samleið. Þetta eru verkefni sem eru sígild deilumál kynslóð fram af kynslóð eins og breytingar á stjórnarskránni.