16.12.2023 10:29

Samfylkingin óttast lýðræði

Þessar ólíku aðferðir og tölur við kjör á formanni Samfylkingarinnar sýna hve dregið hefur úr lýðræðisáhuga við val á flokksformanninum.

Stjórnmálafræðingar eru sjaldan kallaðir í fjölmiðla til að ræða þróun Samfylkingarinnar undanfarin tvö ár og skýra fyrir almenningi hvers vegna í ósköpunum flokkurinn hefur tekið stakkaskiptum.

Á stofnfundi Samfylkingarinnar í Borgarleikhúsinu 5. maí 2000 var lýst kjöri Össurar Skarphéðinssonar alþingismanns sem formanns flokksins. Hann var kjörinn formaður í póstkosningu sem stóð í nokkrar vikur. Össur fékk 3363 atkvæði, eða 76,4%, en Tryggvi Harðarson 956 atkvæði eða 21,7% af alls 4401 atkvæði sem barst.

23640AÖssur Skarphéðinsson lýstur formaður Samfylkingarinnar 5. maí 2000 (mynd: mbl/Árni Sæberg).

Þessi lýðræðislega aðferð við val á formanni flokksins er í hróplegri andstöðu við „krýningu“ Kristrúnar Frostadóttur sem staðfest var af formsástæðum á landsfundi flokksins í október 2022. Kristrún Frostadóttir hlaut þar 94,59 % greiddra atkvæða, á kjörskrá voru 382 og kjörsókn 77,49%.

Þessar ólíku aðferðir og tölur við kjör á formanni Samfylkingarinnar sýna hve dregið hefur úr lýðræðisáhuga við val á flokksformanninum. Raunar heyra opnar kosningar innan flokksins um forystuembætti eða frambjóðendur í kosningum nú orðið til undantekninga.

Óttinn við erfiða flokkadrætti hefur ýtt lýðræðinu til hliðar. Þess í stað er oflofi hlaðið á einstaklinga eins og gert hefur verið í ummælum um Kristrúnu svo að ekki sé minnst á Dag B. Eggertsson. Einkennilegt er hve margir fjölmiðlamenn velja sér stöðu innan þess bergmálshellis. Þar njóta þeir samveru við skoðanabræður í hópi álitsgjafa meðal stjórnmálafræðinga.

Í ljósi þess hvernig staðið var að valdatöku núverandi formanns Samfylkingarinnar vakna spurningar um umboð hans til að höggva á meginlínur sem voru lagðar við stofnun flokksins. Aðild að Evrópusambandinu átti að verða helsti aflvaki nýrra tíma: „Það er grundvallarafstaða Samfylkingarinnar að Ísland eigi að sýna metnað og hugrekki í samskiptum við önnur ríki. Í því felst að taka fullan þátt í Evrópusamstarfinu ...“ Þetta sögðu fulltrúar Samfylkingarinnar í skýrslu um tengsl Íslands við ESB skömmu fyrir þingkosningar árið 2007.

Að kosningunum loknum settist Samfylkingin í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og knúði á um ESB-aðild sem hún gat síðan látið reyna á árið 2009 í stjórn með Vinstri grænum.

Nú segir í stefnu Samfylkingarinnar: „Samfylkingin vill efla og dýpka þessa samvinnu [við ESB] og stefnir að fullri aðild að Evrópusambandinu með upptöku evru að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Öllu er slegið á frest og ákveðið að leggja „grundvallarafstöðuna“ undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað gerðist? Jú, aðildarstefnan sigldi í strand í viðræðum við fulltrúa ESB. Hún reyndist illa ígrunduð og reist á röngum forsendum. Innan Samfylkingarinnar hafa menn ekki haft burði til að viðurkenna það eða ræða málið til hlítar í sinn hóp.

Innviðir flokksins eru orðnir svo fúnir að þeir þola hvorki álag vegna formannskjörs né vegna uppgjörs þegar grundvallarafstöðu er stungið undir stól.

Framhald...