Samfylkingin myndar ekki borgaralega stjórn
Þá heyrist hugmyndinni um minnihlutastjórn hampað. Inga Sæland sé ekki stjórntæk en nógu góð til að láta flokk sinn verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Viðreisnar falli.
Ekki ríkir einn skilningur á því hvað felst í orðunum borgaraleg ríkisstjórn. Þetta er einfaldlega íslenskun á dönsku borgerlig regering.
Í Danmörku og annars staðar á Norðurlöndunum er það borgaraleg ríkisstjórn sitji hvorki ráðherrar jafnaðarmanna né flokka til vinstri við þá í henni.
Fráfarandi ríkisstjórn hér á landi var ekki borgaraleg á meðan VG átti aðild að henni. Borgaraleg ríkisstjórn verður ekki til með aðild Samfylkingarinnar.
Í borgaralegri ríkisstjórn sitja fulltrúar flokka sem skilgreindir eru hægra megin við miðju. Hér eru það nú fjórir flokkar: Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn, Miðflokkur og Framsóknarflokkur segja fræðimenn við Háskóla Íslands.
Þar er Flokkur fólksins settur á miðjan ásinn milli hægri og vinstri. Samfylkingin er eini þingflokkurinn vinstra megin við miðju.
Að morgni þriðjudagsins 3. desember hitti Halla Tómasdóttir forseti Íslands Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, í bókhlöpunni á Bessastöðum og fól henni umboð til stjórnarmyndunar (mynd: mbl.,is/Karitas).
Myndi Kristrún Frostadóttir stjórn verður það ekki borgaraleg ríkisstjórn. Líklega ætti að kenna stjórn undir forræði Kristrúnar við mið-vinstri. Þá geta menn farið að rífast um hvort til sé nokkur vinstri/hægri skipting. Að sjálfsögðu er hún fyrir hendi.
Í Danmörku tala menn um rød blok. Í henni eru vinstrisinnaðir/sósíalískir flokkar auk flokka eins Radikale venstre. Í blå blok eru frjálslyndir og íhaldssamir flokkar auk annarra sem skipa sér hægra megin við miðju.
Nú situr þriggja flokka ríkisstjórn í Danmörku undir stjórn jafnaðarmanns með flokksbroti Lars Løkke Rasmussens, fyrrv. formanns borgaralega flokksins Venstre, og Venstre-flokknum. Danska ríkisstjórnin á undir högg að sækja. Hér væri það eins og Samfylkingin myndaði stjórn með Viðreisn og Sjálfstæðisflokki.
Í Þýskalandi situr þriggja flokka stjórn (sem er sprungin) undir forsæti jafnaðarmanns með borgaralegum, frjálslyndum flokki og græningjum.
Umræðurnar sem stofnað hefur verið til í frétta- og samfélagsþáttum ríkisútvarpsins vegna brottfalls vinstri flokkanna, VG og Pírata, af þingi auk lélegs árangurs Sósíalistaflokksins bera þess merki að fréttastofan eigi um sárt að binda. Miðað við stefið sem einkennir umræðurnar núna sakna margir þeirra sem leiða umræður í ríkisfjölmiðlinum vinar í stað.
Stjórnmálaprófessorinn fyrrverandi, sem leiðir allt út frá tölfræðinni, vill fleiri flokka á þing með lækkun á þröskuldum. Annars staðar á Norðurlöndum eigi allt upp í fimm flokkar ráðherra í stjórnum og þeim vegni bara vel. Þá heyrist hugmyndinni um minnihlutastjórn hampað. Inga Sæland sé ekki stjórntæk en nógu góð til að láta flokk sinn verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Viðreisnar falli.
Nú er sú regla að flokkar sem fá 2,5% atkvæða eða meira í þingkosningum geta á fjórum árum gengið að rúmum 100 m. kr. frá skattgreiðendum vísum. Ætti ekki að afnema styrkinn dugi hann flokki ekki til að ná kjöri að loknu einu kjörtímabili utan þings?
Þá mætti skylda fylgislítinn flokk á ríkisstyrk annað kjörtímabilið í röð til að taka samhuga flokk með minna en 2,5% atkvæða á framfæri. Það stuðlaði nú að sameiningu VG og Sósíalistaflokksins og væntanlega fækkun dauðra atkvæða.