Samfylkingin gegn Suðurkjördæmi
Oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi gengur nú fram fyrir skjöldu með yfirlýsingu um að þar sé besti jarðvegurinn fyrir skattauppskeru flokks síns. Skyldi hann sópa að sér fylgi?
Samfylkingin ætlar að hækka skatta. Um það er ekki deilt. Öll aukin skattheimta er í raun hækkun byrða á allan almenning þótt sagt sé að byrðarnar lendi annars staðar.
Víðir Reynisson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sat fyrir svörum í Spursmálum á mbl.is fimmtudaginn 7. nóvember. Þar lagði hann áherslu á að ætlunin væri að hækka fjármagnstekjuskatt úr 22% í 25% enda legðist hann á „breiðu bökin“. Vinstrisinnar telja að með þessu hugtaki skapi þeir sér frið til að auka álögur sem minnka fjárhagslegt svigrúm allra einstaklinga og fyrirtækja.
Þegar þáttarstjórnandinn, Stefán Einar Stefánsson, minnti Víði á að margir einyrkjar sem héldu úti rekstri gegnum einkahlutafélög greiddu fjármagnstekjur af arði sem greiddur væri út úr slíkum félögum sagði Víðir að þar væri einmitt um „breið bök“ að ræða og þau gætu borið hærri skatta.
Á mbl.is segir að arð sem beri fjármagnstekjuskatt megi rekja til hagnaðar viðkomandi fyrirtækja. Áður en til arðgreiðslu komi og álagningar fjármagnstekjuskatts hafi þessi arður borið 20% skatt. Virk skattheimta af þeim fjármunum sem þar er um að ræða sé því 37,6%. Víðir og félagar vilji hækka þessa skattbyrði í 40%.
Víðir sagði að Samfylkingin væri jafnframt að skoða „mjög víðtæk auðlindagjöld, en sanngjörn á marga þætti, ekki bara veiðigjaldið. Við erum að horfa á raforkuna, við erum að horfa á orkuna yfir höfuð. Við erum að horfa á stýringu ferðamannastaða“.
Séð til Vestmannaeyja.
Suðurkjördæmi á mest allra kjördæma utan höfuðborgarsvæðisins undir orkuvinnslu, sjálfstæðum atvinnurekstri bænda og þjónustu vegna vinsælla ferðamannastaða. Oddviti Samfylkingarinnar í þessu kjördæmi gengur nú fram fyrir skjöldu með yfirlýsingu um að þar sé besti jarðvegurinn fyrir skattauppskeru flokks síns. Skyldi hann sópa að sér fylgi?
Innan Samfylkingarinnar sitja menn yfir því að þrengja fjárhagslegt svigrúm einstaklinga og fyrirtækja á öllum sviðum. Þar er enginn skilningur á því að á þennan hátt sé dregið úr verðmætasköpun og þar með sjálfum grunninum undir eðlilegu jafnvægi í tekjuöflun ríkisins.
Stefán Einar hefði átt að nefna bændur þegar hann minntist á að rakarinn, píparinn og smiðurinn, allir einyrkjar í rekstri þyrftu að borga hærri skatta vegna tillagna Samfylkingarinnar. Og fleiri koma til. Eftirlaunamaðurinn Sævar Helgason sagði á Facebook-síðu sinni í tilefni af orðum Víðis að fjármagnstekjuskattur væri lagður á sparifé eldra fólks um verðtryggða bankareikninga. Þetta fé hefði áður borið skatt sem vinnulaun. Þá seldu eldri borgarar íbúðir sínar og nýttu fjármunina til leigu í húsnæði og þjónustu fyrir eldri borgara – ævina á enda. Verðtrygging væri grunnur slíkra gjörninga. Að lokum segir Sævar: „Nú hugnast stjórnmálaflokkum að sækja fé í þessa gamlingja – um 25% fjármagnstekjuskatt – sem um auðmenn væri að ræða. Vonandi verður sanngirni höfð að leiðarljósi við sókn í þessa fjármuni. Tæpast eru gamlingjar í svona stöðu – hin breiðu bök – í ellinni.
Samfylkingin gengur til kosninganna 30. nóvember til að hækka þessa skatta.