9.2.2019 11:16

Samfylkingin ábyrg vegna kosningabragða

Hvað sem líður lögbrotum Reykjavíkurborgar í málinu hefur það stórpólitíska hlið að stjórnmálamenn í lýðræðislandi beiti sér fyrir misnotkun opinbers valds til að styrkja stöðu sína í kosningum.

Samfylkingin er flakandi sár vegna vandræðamála. Nú hefur verið upplýst að frambjóðandi flokksins í þingkosningum árið 2017, Ellert B. Schram, varaþingmaður, ritaði undir bréf sem borgin sendi frá sér skömmu fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí 2018 til kvenna 80 ára og eldri með hvatningu um að þær færu á kjörstað.

Election_fraudUm þetta segir Persónuvernd í ákvörðunarorðum frá 31. janúar 2019:

„Vinnsla Reykjavíkurborgar á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands, sem fólst í að senda skilaboð til kvenna 80 ára og eldri og erlendra ríkisborgara fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2018, samrýmdist ekki lögum nr. 77/2000.“

Þetta bréf átti ekkert skylt við kosningarannsóknir heldur var einungis áróðursbréf undir undir fölsku flaggi.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri brást við ákvörðunum Persónuverndar í fréttabréfi sem hann birti föstudaginn 8. febrúar. Þar segir meðal annars:

„Verkefnið sem um ræðir var eitt af þeim sem borgarráð sameinaðist um að efna til með samþykkt tillagna sem hópur sérfræðinga hafði unnið.“

Þetta er hálfsannleikur. Í sjálfu sér er það ekki verkefnið sem sætir ámæli heldur framkvæmd þess sem fól í sér lögbrot. Í Morgunblaðinu í dag (9. febrúar) skýrir Kjartan Magnússon, þáv. borgarráðsmaður sjálfstæðismanna, frá því hvaða felu- og blekkingarleik var gripið til af Degi B. og meirihluta hans fyrir kosningar 2018 til að afvegaleiða borgarráð. Sama var gert við Persónuvernd sem segir í ákvörðun sinni:

„Ámælisvert er að Reykjavíkurborg hafi ekki veitt Persónuvernd upplýsingar um alla þætti málsins eftir að stofnunin óskaði sérstaklega eftir því með bréfi, dagsettu 14. maí 2018.“

Á ábyrgð borgarstjóra var bæði leitast við að blekkja minnihlutann í borgarráði og Persónuvernd.

Í fréttabréfi borgarstjóra segir hann eigin hneyksli til afsökunar:

„Fyrir liggur að rannsóknin hafði fengið samþykki Vísindasiðanefndar Háskóla Íslands.“

Persónuvernd var þetta ljóst en segir: „Með hliðsjón af valdsviði Persónuverndar skal tekið fram að það heyrir ekki undir stofnunina að meta siðferðisleg álitamál tengd vísindarannsóknum. Hins vegar er það hlutverk Persónuverndar að meta hvort persónuupplýsingar séu unnar í samræmi við framangreindar meginreglur persónuverndarlaga.“

Þessi afsökun borgarstjóra er því venjulegt yfirklór.

Eins og sagði hér að framan snertir þetta mál Samfylkinguna. Varaformaður hennar situr við hægri hönd borgarstjóra í meirihlutanum í Reykjavík. Hvað sem líður lögbrotum Reykjavíkurborgar í málinu hefur það stórpólitíska hlið að stjórnmálamenn í lýðræðislandi beiti sér fyrir misnotkun opinbers valds til að styrkja stöðu sína í kosningum.

Í umræðum um málið hefur því verið hreyft að senda ætti það til ÖSE, Öryggissamvinnustofnunar Evrópu sem hefur á hendi eftirlit með framkvæmd kosninga. Þar situr hins vegar fyrir sem lýðræðis-og mannréttindavörður Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og borgarstjóri. Hún réttir Degi B. jafnan hjálparhönd í vandræðum hans – skyldi hún líka gera það núna?