12.11.2021 12:11

Samfylking í villu

Þarna endurspeglast svo mikil vanþekking formanns þingflokks Samfylkingarinnar á stjórnskipun lýðveldisins að vekur ótta um hugmyndir undir hennar forystu í þessum hópi þingmanna.

Oddný Harðardóttir hefur verið formaður þingflokks Samfylkingarinnar frá 2017. Hún var formaður flokksins á árinu 2016 og um 2012 gegndi hún um tíma embætti fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Hún hefur setið á þingi síðan vorið 2009 fyrir Suðurkjördæmi.

7DM_5150_raw_1945.width-500Oddný Harðardóttir þingflokksformaður og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. (Mynd: Kjarninn,is)

Oddný birti grein í Morgunblaðinu í gær (11. nóv.) undir fyrirsögninni: Sala Mílu varðar öryggi þjóðarinnar og í dag i Fréttablaðinu undir fyrirsögninni: Lýðræðið og þjóðaröryggið.

Greinarnar fjalla báðar um sama efni, að ljósleiðara- og fjarskiptafyrirtækið Míla sé ekkert venjulegt fyrirtæki, það skipti máli hverjir eigendur þess séu því að rekstur Mílu varði íslenskan almenning og öryggi þjóðarinnar.

Fjárfestingafélagið Ardian France SA hefur samið um kaup á Mílu. Oddný telur réttilega að ekki sé nóg að okkur sé „sagt að stjórnendur félagsins séu viðkunnanlegir“. Það verði að gera ríkar kröfur til félags sem er með eignarhald á svo mikilvægum innviðum.

Míla eignast fimm af átta stengjum í ljósleiðarakerfinu, þrír eru á opinberri forsjá, einn þeirra leigður Vodafon. Um það leyti sem Oddný var kjörin á þing var hugmyndin að leigja tvo af þessum þremur strengjum og hefur hún nú verið endurvakin. Þá á ríkið og rekur Orkufjarskipti með eigin ljósleiðarakerfi og ríkið á einnig sæstrenginn Farice. Fjarskiptasjóður gerði í apríl 2012 fyrir hönd ríkissjóðs, að tillögu Oddnýjar sem fjármálaráðherra, þjónustusamning við Farice ehf um stuðning ríkisins við félagið sem þá átti í alvarlegum lausafjárvandræðum. Síðar eignaðist ríkið svo Farice.

Hér er því sambland af opinberum og einkarekstri um fjarskiptakerfi. Má auðveldlega rökstyðja að lélegur taprekstur sé hættulegri öryggi landsmanna og þjóðarhag en vel rekin fyrirtæki höndum vinveittra eigenda þótt þeir búi utan landsteinanna.

Áhyggjur Oddnýjar eru flokkspólitískar. Hún vill koma höggi á ríkisstjórnina vegna sölunnar á Mílu. Í Morgunblaðinu segir hún:

„Alþingi hefur ekki komið saman í marga mánuði og þegar þessi pistill er skrifaður vitum við ekki enn hvenær þing kemur saman. Ríkisstjórnin fráfarandi getur ekki leyft sér að hunsa Alþingi í svo mikilvægu máli. Ef í það stefnir verður forsetinn að skipa starfsstjórn og kalla þingið saman.“

Í þessum orðum endurspeglast svo mikil vanþekking formanns þingflokks Samfylkingarinnar á stjórnskipun lýðveldisins að vekur ótta um hvaða hugmyndir ríkja undir hennar forystu í þessum hópi þingmanna.

Í fyrsta lagi segir stjórnarskráin að allt að 10 vikur megi líða að loknum kosningum þar til þing er kallað saman. Í öðru lagi er ekki um neina fráfarandi ríkisstjórn að ræða. Meirihluti þingmanna stendur að baki ríkisstjórn sem nú er að endurnýja samstarfsgrundvöll sinn. Í þriðja lagi hefur forseti lýðveldisins ekki vald til að ýta ríkisstjórn til hliðar og skipa ríkisstjórn að eigin höfði og kalla „starfsstjórn“. Slík stjórn verður til missi ríkisstjórn þingmeirihluta sinn og er falið að sitja áfram þar til ríkisstjórn sem nýtur stuðnings alþingis er mynduð.