15.4.2021 10:42

Samfylking í tilvistarkreppu

Undir forystu Loga Einarsson sýnist Samfylkingin helst móta sér þá stefnu að lýsa andstöðu við að starfa með Sjálfstæðisflokknum.

Samfylkingin fagnar 21 árs afmæli í ár. Hún var stofnuð árið 2000 til að sameina vinstri menn. Það misheppnaðist frá upphafi, Steingrímur J. Sigfússon, Hjörleifur Guttormsson og Svavar Gestsson beittu sér fyrir stofnun VG – vinstri grænna – til höfuðs Samfylkingunni.

VG hefur átt lengur aðild að ríkisstjórnum á þessum tveimur áratugum en Samfylkingin. Saman mynduðu flokkarnir stjórn 1. febrúar 2009, minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknarflokksins. Frá vori 2007 hafði Samfylkingin átt aðild að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Í kosningunum vorið 2009 fengu VG og Samfylking umboð kjósenda til að mynda meirihlutastjórn og sat hún við völd í eitt kjörtímabil, fjögur ár til vorsins 2013. Þá fengu flokkarnir hroðalega útreið enda reyndist fyrsta „hreina vinstri stjórnin“ versta ríkisstjórn síðari áratuga. Henni fórst flest illa úr hendi, bar þrennt hæst: ICESAVE-samningarnir, stjórnarskrármálið og ESB-aðildarumsóknin.

1187344Logi Einarsson hefur leitt Samfylkinguna síðan 31. október 2016. Þá var hann eini kjördæmakjörni þingmaður flokksins og Oddný Harðardóttir hrökklaðist úr formannssætinu eftir ömurlega útreið í kosningum (mynd mbl.is). 

Samfylkingin átti sem sagt aðild að ríkisstjórn í sex ár, 2007 til 2013. VG hefur hins vegar átt aðild að ríkisstjórn í rúm átta ár.

Sé þetta notað sem mælanlegur árangur er ljóst að Samfylkingin hefur tæplega átt erindi sem erfiði og nú þegar dregur að kosningum hallar hún sér æ meira að Pírötum eins og sést af stefnunni sem hún fylgir í stjórnarskrármálinu. Málsvari Pírata meðal leiðarahöfunda Fréttablaðsins veitist miðvikudaginn 14. apríl að stjórnmálaflokkunum fyrir „að reyna að höfða til allra kjósenda í stað þess að standa á þeim grunni sem þeir eru byggðir á“ og segir:

„Dæmi um þetta er Samfylkingin og hennar þekktasta baráttumál: evran og aðild að Evrópusambandinu. Einhverra hluta vegna hefur flokkurinn gefist upp á sínu helsta stefnumáli. Það virðist horfið úr tungumáli flokksins; orðið tabú.“

Undir forystu Loga Einarsson sýnist Samfylkingin helst móta sér þá stefnu að lýsa andstöðu við að starfa með Sjálfstæðisflokknum. Minni spámenn flokksins, t.d. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur, taka síðan að sér að útfæra þessa stefnu á samfélagsmiðlum. Á FB-síðu 14. apríl gagnrýnir Guðjón Bjarna Benediktsson fyrir að hafa ekki efnt fyrirheit við eldri borgara í kosningarbréfi frá 2013.

Gott er fyrir samfylkingarfólk að sagnfræðingur minnir á þetta, hann hefði einnig átt að skýra hvað olli hruni flokks hans á þessum tíma og eyðimerkurgöngunni síðan. Í færslu sinni dregur Guðjón athygli að fyrirheiti um að „lækka fjármagnstekjuskatt“ og „afnema tekjutengingar ellilífeyris“. Í athugasemdum við færslu hans er bent á að í báðum þessum tilvikum hafa verið stigin skref til hagsbóta fyrir eldri borgara undir forystu Bjarna.

Færsla sagnfræðingsins er góðra gjalda verð en misheppnuð. Áróðursmenn Samfylkingarinnar sögðu fyrir prófkjör að „sænska leiðin“ sem Logi valdi kæmi í veg fyrir ágreining að prófkjörum loknum. Nú logar flokkurinn stafna á milli vegna prófkjöranna. Að berja í brestina með sagnfræðilegum rangfærslum á FB um formann Sjálfstæðisflokkinn minnir á örvæntingarfullt neyðaróp. Hvernig væri að Samfylkingin segði hvað hún ætlar að gera?