5.7.2022 10:27

Sambúð Pírata og Samfylkingar

Fyrir þingkosningar í september 2021 stillti Samfylkingin sér við hlið Pírata og sama gerðist í borgarstjórnarkosningunum. Forvitnilegt verður sjá hvað sagt verður um samstarfið við Pírata í formannskjörinu í Samfylkingunni.

Í þjóðarpúlsi Gallups 30. júní 2022 eru Píratar með 16,1% en Samfylkingin 13,7%. Í lok júní stóðu flokkarnir svo að segja jafnfætis Píratar 14,7, Samfylking 14,1%. Hvað gerðist?

Þegar þingi lauk fyrir sumarhlé um miðjan júní birtust fréttir um að Björn Leví Gunnarsson Pírati hefði verið ræðukóngur alþingis á liðnum vetri, hann talaði í 1.547 mínútur í þingsalnum eða í tæpar 26 klukkustundir. Sagt var að hann hefði haldið ræður í 1.014 mínútur og aðrar athugasemdir í 533 mínútur. Tveir flokksbræður hans, Gísli Rafn Ólafsson sem talaði í 1.357 mínútur og Andrés Ingi Jónsson í 1.243 mínútur, skipuðu 2. og 3. sætið.

Skömmu áður en fréttir um þennan þunga í málflutningi Pírata á þingi þar sem notaðir voru allar lausar mínútur samkvæmt þingsköpum til að halda málstað þeirra fram birtust fréttir um samning Pírata, Samfylkingar, Framsóknarflokksins og Viðreisnar að baki meirihlutasamstarfi í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar réð útilokunarstefna Pírata og Samfylkingar úrslitum með stuðningi Viðreisnar sem tókst að lokka framsóknarmenn til sín.

Fr_20220606_179827Píratalegi meirihlutasamningurinn kynntur: Einar Þorsteinsson, Dagur B. Eggertsson, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Dóra Björt Guðjónsdóttir.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn, var ekki í minnsta vafa um að málefnalega hefði hún náð öllu sínu fram við gerða málefnasamningsins og bætti það upp draum hennar um að verða borgarstjóri.

Hún sagði um málefnasamninginn að hann væri „mjög Píratalegur“ auk þess sem Píratar stýrðu fagráðum innan borgarkerfisins sem endurspegluðu „kjarnaáherslur flokksins“. Píratar færu með umhverfis-, skipulags-, og samgöngumál auk nýja stafræna ráðsins þar sem gagnsæismálum, lýðræðismálum og stafrænni þjónustu yrði gert hátt undir höfði.

„Við leggjum ríka áherslu á að vera á gólfinu þar sem við getum brett upp ermar og breytt í þágu íbúa,“ sagði Dóra Björt á ruv.is 6. júní 2022.

Allt hefur þetta greinilega orðið til að styrkja stöðu Pírata ef marka má nýjasta þjóðarpúls Gallup og hleypt þeim duglega fram úr Samfylkingunni.

Þegar rýnt er í hvað Píratar hafa í raun til málanna að leggja, hvert sé erindi þeirra í stjórnmálin, verður myndin óskýr. Alkunna er að í borgarstjórn er Dóra Björt á móti fjölskyldubílnum. Þannig er það í flestum málum að Píratar eru á móti.

Þeir voru að vísu með „nýju stjórnarskránni“ eins lengi og þeir töldu til vinsælda fallið. Enginn talar lengur um hana. Þeir vilja „no borders“, eru á móti landamæravörslu, vilja hömlulausa för hælisleitenda. Í þingsalnum eru ræður þeirra einkum aðfinnslur og kvartanir yfir því að mál beri ekki að með þeim hætti sem fellur þeim í geð.

Helsta einkenni Pírata er leyndin yfir stefnu þeirra og hvert þeir vilja að þjóðarskútan sigli. Þeir láta aðra um það en huga trúir flokksheitinu að snöggum blettum og hvernig þeir geti helst valdið öðrum óþægindum eða tjóni.

Fyrir þingkosningar í september 2021 stillti Samfylkingin sér við hlið Pírata og sama gerðist í borgarstjórnarkosningunum. Forvitnilegt verður sjá hvað sagt verður um samstarfið við Pírata í formannskjörinu í Samfylkingunni. Það er kjarnaatriði í starfi flokksins á alþingi og í borgarstjórn.