25.6.2017 18:27

Salami-aðferðin á flugvöllinn - borgarlínan tímaskekkja

Flest bendir til að í ljósi tækniþróunar séu talsmenn lokunar Reykjavíkurflugvallar og borgarlínunnar ekki á réttum tíma. Þá vanti nýtt smáforrit.

Salami-aðferðin gegn Reykjavíkurflugvelli verður ætíð skýrari. Ætlun andstæðinga hans er að þrengja að flugvellinum á þann veg að við blasi að flugvélar geta ekki nýtt hans vegna þess að flugmenn telja öryggi farþega sinna og þeirra sjálfra ógnað með því að nýta völlinn.

Nýjustu skipulagsfréttir snúast um að heimila skuli meiri íbúðabyggð við völlinn en áður var ákveðið. Rifist er um öryggismat vegna flugvallarins og af hálfu borgaryfirvalda eru verktakar en ekki flugfarþegar látnir njóta vafans.

Í marga áratugi hefur aðstaða í flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli verið til skammar. Nú þegar Jón Gunnarsson samgönguráðherra vill skapa starfseminni viðunandi umhverfi leitar fréttastofa ríkisútvarpsins alla uppi sem hún telur hafa aðra skoðun á málinu og þeir eru meðal annars innan ríkisstjórnarinnar.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra bendir réttilega á að um tvö aðskilin mál sé að ræða: mannsæmandi aðstöðu í flugstöðinni annars vegar og framtíð flugvallarins hins vegar. Með því að viðhalda óbærilegu ástandi í flugstöðinni telja andstæðingar vallarins að þeir hraði ákvörðun um að hann verði aflagður.

Kostirnir eru tveir eins og jafnan áður: Reykjavíkurflugvöllur og Keflavíkurflugvöllur eða aðeins Keflavíkurflugvöllur. Tal um flugvöll í Hvassahrauni minnir á talið um Sundabraut eða að reisa Landspítalann annars staða er við Hringbrautina. Það hefur ekki einu sinni verið kannað hvort Hvassahraun sé á vatnsverndarsvæði.

Síðan er það borgarlínan. Í norskum fjölmiðlum var sagt frá því í dag útblásturslausir, sjálfakandi strætisvagnar birtust brátt á götunum í Osló. Á næsta ári geti menn pantað sjálfakandi rafmagnsvagn í Ruter-smáforritinu og látið hann aka sér þangað sem maður kýs.

Ætlunin er að Ruter og Bymiljøetaten, umhverfisstofnunin í Osló, geri tilraun með slíka strætisvagna frá mars 2018. Ætlunin er að 10 til 20 sjálfakandi vagnar verði teknir í notkun.

Sá sem ætlar að taka strætisvagn pantar hann með því að nota Ruter á snjallsíma sínum. Þar birtist hve biðtími eftir vagninum er langur. Það er undir manni sjálfum komi hvert ekið er sé það innan tilraunasvæðisins. Á leiðinni þangað verður vagninn við óskum annarra, þeir koma um borð eða yfirgefa vagninn.

Tilraunin á að standa frá mars 2018 til janúar 2019. Norska samgönguráðuneytið hefur kynnt til umsagnar lagafrumvarp sem gerir fyrirtækjum og sveitarfélögum kleift að sækja um leyfi til að reyna sjálfakandi bifreiðar.

Flest bendir til að í ljósi tækniþróunar séu talsmenn lokunar Reykjavíkurflugvallar og borgarlínunnar ekki á réttum tíma. Þá vanti nýtt smáforrit. Líklegt er þó að þetta verði helstu deilumálin í komandi borgarstjórnarkosningum í höfuðborg sem skuldar 350 milljarða króna, svo háa fjárhæð að borgarfulltrúar vita ekki hvernig á að ræða um hana og því síður að lækka hana.