23.7.2020 9:55

Sagt frá Sæmundi fróða að Kvoslæk

Íbúar í Rangárþingi eiga að sameinast um að gera Odda að menningar og fræðamiðstöð í héraði sínu eins og Reykholt hefur orðið í Borgarfirði.

Í Morgunblaðinu í dag (23. júlí) birtist þessi frásögn:

„Næstkomandi laugardag, 25. júlí, kl. 15 flytur Friðrik Erlingsson rithöfundur fyrirlestur að Kvoslæk í Fljótshlíð sem ber yfirskriftina Fingraför Sæmundar fróða - Hverjar eru helstu vísbendingar um ritstörf Sæmundar Sigfússonar í Odda?

Þar fer Friðrik yfir heimildir um og tilvitnanir í Sæmund í fornum bókum, sem ýmsir fræðimenn hafa velt fyrir sér. „Engin heildarúttekt hefur verið gerð á mögulegum verkum Sæmundar, en þau gætu verið þó nokkur ef grannt er skoðað. Til dæmis hef ég hvergi séð minnst á að Sæmundur muni hafa skrifað eða þýtt sögu af heilögum Nikulási, en það er útilokað annað en að hann hafi sett saman slíkt verk fyrir kirkjuna í Odda. Við vitum með vissu að hann samdi Noregskonungatal og langfeðgatal Skjöldunga, það er Danakonunga, og við vitum að hann á sinn hlut í Tíundarlögum og Kristnirétti,“ segir Friðrik Erlingsson og enn fremur:

„Svo er spurningin hversu stóran þátt hann á í sköpun eða söfnun þeirra fræða sem Snorri Sturluson nýtir sér við gerð Snorra-Eddu, tæpri öld eftir dauða Sæmundar. Það er vitnað til Sæmundar í Landnámu, um komu Naddodds til landsins, og í þessum frásögnum af komu fyrstu norrænu mannanna til landsins má finna fingraför hins lærða manns þegar grannt er skoðað.““

Friðrik Erlingsson er stjórnarmaður í Oddafélaginu sem hefur þann tilgang „að gera Odda að miðstöð menningar á nýjan leik með áherslu á sögu staðarins og mikilvægi hans um aldir,“ eins og segir í samþykktum þess .

Lsr_photo_smallerphoto_1377698381_934238499ce806205bfb7ac1fb39e2fa_0Stytta Ásmundar Sveinssonar Sæmundur á selnum var sett upp fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands í maí 1970 og síðan einnig að Odda á Rangárvöllum í maí 1998.

Nýlega var svonefndri Oddarannsókn hleypt af staða undir forystu Helga Þorlákssonar sagnfræðiprófessors við Háskóla Íslands. Markmið rannsóknarinnar er að varpa sem skýrustu ljósi á ritmenningu í Odda á miðöldum með áherslu á tímabilið 1100 til 1300.

Þar verður meðal annars rannsakað hvernig Sæmundur fróði lagði grunn að lærdómsmiðstöð í Odda. Rannsóknin fékk í vor styrk úr sjóði sem ríkisstjórnin stofnaði til að kanna ritmenningu íslenskra miðalda og undir þeim hatti hafa verið veittir styrkir sem tengja Odda, Reykholt í Borgarfirði, Þingeyrar í Húnaþingi og Staðarhól í Dölum. Í Oddarannsókninni verður reynt að leiða í ljós hvaða efnahagslegar skýringar eru að baki því að í Odda var valdamiðstöð, kirkjumiðstöð og lærdómsmiðstöð.

Íbúar í Rangárþingi eiga að sameinast um að gera Odda að menningar og fræðamiðstöð í héraði sínu eins og Reykholt hefur orðið í Borgarfirði. Oddarannsóknin rennir stoðum undir að það verði gert.

Oddarannsóknin skiptist í þrjá verkþætti sem eru (1) fornleifarannsókn, stjórnandi Kristborg Þórsdóttir; (2) umhverfi og mannvist , stjórnandi Egill Erlendsson; og í þriðja lagi miðstöðin Oddi sem skiptist aftur í þrennt þ.e. (a) valdamiðstöð og (b) kirkjumiðstöð, þar sem Sverrir Jakobsson stýrir rannsóknum og loks (c) lærdómsmiðstöð þar sem Ármann Jakobsson stýrir.