18.8.2019 10:33

Sagan endurtekur sig

Hefði einhver sagt í Moskvu um miðjan níunda áratuginn að Sovétríkin yrðu að engu innan fárra ára og ríki Austur- og Mið-Evrópu færu í ESB og NATO hefði honum verið ekið að geðsjúkrahús.

Per Nyholm. dálkahöfundur Jyllands-Posten, skrifar í dag (18. ágúst) um ástandið sem ríkir í Moskvu og Hong Kong vegna mótmæla gegn stjórnvöldum. Í Hong Kong hófust mótmælin fyrir nokkrum vikum af ótta við að stjórnvöld þar ætluðu að samþykkja lagafrumvarp til að auðvelda framsal fólks til yfirvalda í Peking.

Í Moskvu hefur verið mótmælt í nokkrar vikur til að knýja fram samþykki við kröfu um að stjórnarandstæðingar fái að bjóða sig fram í sveitarstjórnarkosningum sunnudaginn 8. september.

Title-mangler-1Nyholm segir að nú þegar 70 ár séu frá valdatöku kommúnista í Kína velti menn fyrir sér hvort valdhafarnir grípi enn til ofbeldisverka til að brjóta mótmælin í Hong Kong á bak aftur. Það væri í samræmi við það sem gerst hefur í Tíbet, Xinjiiang og á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Hitt sé þó ekki unnt að útiloka að atburðarásin verði allt önnur. Óvæntir atburðir gerist bæði í Hong Kong og Moskvu.

Fyrir 30 árum hafi orðið bylting í Austur- og Mið-Evrópu sem enginn landstjórnenda þar vænti. Viðbrögð Pútíns nú séu alltof harkaleg og mótist af eigin reynslu þegar hann neyddist til að flýja árið 1989 frá Austur-Þýskalandi til Moskvu eftir sovéska stjórnstöðin í Dresden varð að engu. Í augum Pútins jafngildi veiklyndi falli en spyrja megi hvort lausnin felist í ofbeldi. Ceausesccu ógnvaldur Rúmena beitti öryggislögreglu sinni af hörku gegn friðsömum almenningi í desember 1989 en þá tók herinn afstöðu með mótmælendum og Ceausescu og Elena, kona hans, voru tekin af lífi í beinni útsendingu.

Hefði einhver sagt í Moskvu um miðjan níunda áratuginn að Sovétríkin yrðu að engu innan fárra ára og ríki Austur- og Mið-Evrópu færu í ESB og NATO hefði honum verið ekið að geðsjúkrahús. Atburðarásin varð þó á þennan veg og enn velta menn fyrir sér hvað gerðist í raun og veru. „Vita þaulsetnir stjórnendur eins og Pútin og Xi Jinping Kínaforseti hvað þeir vita ekki?“ spyr Nyholm og segir í lok greinar sinnar:

„Í febrúar 1917 skrifaði Nikolaj II. Rússakeisari konu sinni í St. Pétursborg bréf frá vesturvígstöðvunum: „Hér getur heili minn hvílst, engir ráðherrar, engin truflandi úrlausnarefni, engin öskur og óp .... ég spila dómínó við sjálfan mig.“ Nikolaj var alveg óhæfur stjórnandi og herforingi og hafði ekki minnstu hugmynd um það sem gerðist. Ári síðar tóku kommúnistar hann, konu hans og fimm börn þeirra af lífi. Kommúnistarnir vildu koma á marxísku þjóðfélagi en gleymdu því sem klóki, gamli Marx sagði: „Sagan endurtekur sig, fyrst sem harmsaga og síðan sem farsi.““