5.9.2020 11:18

Sagan endurtekin

Til að sýna sanngirni tekur Sullivan fram að blaðamaðurinn hefði ekki átt neina framtíð á NYT ef hann hefði ekki kallað sig „óverjandi rasista“.

Andrew Sullivan er kunnur bloggari, blaðamaður og rithöfundur í Bandaríkjunum. Í nýjasta hefti vikuritsins The Spectator (3. september) segir hann frá hvers vegna hann hvarf frá New York-tímaritinu nú í ágúst.

Frásögn hans hefst á lýsingu á atviki fyrir utan veitingastað í Washington. Atvikið minni á menningarbyltinguna í Kína.

Kona situr ein við útiborð. Hópur fólks kemur að henni og heimtar að hún hrópi einhver slagorð og reisi krepptan hnefa til að sýna samstöðu ella sé hún rasisti. Flestir í kringum hana sýndu litla mótspyrnu. Hins vegar lætur hún ekki undan hótunum hópsins. Hrópin magnast: Hvít þögn er ofbeldi! er öskrað í andlitið á henni. Hún haggast ekki. Sullivan notar enska orðið wokeness (tískuorð um samfélagslega vitund) og segir baráttu í anda þess komna á nýtt stig. Ekki alls fyrir löngu hafi menn verið afskrifaðir vegna þess sem þeir gerðu eða sögðu, nú nægi að þeir geri alls ekki neitt.

DiaryEigin reynsla Sullivans snýr einmitt að þessu. Nýlega birtist svipmynd af honum í The New York Times. Tilefnið var að hann neyddist til að hverfa frá New York-tímaritinu nú í ágúst. Í NYT sagði að hann hefði ekki afneitað opinberlega því sem birtist undir ritstjórn hans í tímaritinu New Republic árið 1994. Þar var sagt frá bókinni The Bell Curve eftir Charles Murray og Richard Herrstein um tengsl gáfnavísitölu (IQ), stéttar, félagslegs hreyfanleika og kynþáttar. Glæpur Sullivans fólst í að efna til málþings um bókina og birta viðhorf 13 manna til hennar þar sem sumir gagnrýndu hana með beittum rökum. Þótt hann hefði ekki afneitað ritstjórnarlegri ákvörðun sinni um þetta hefði það ekki komið í vef fyrir að síðan hefðu greinar og dálkar eftir hann birst í TIME, The Atlantic, Newsweek, NYT og New York tímaritinu. Nú gerðist það allt í einu aldarfjórðungi síðar að lokað væri á hann.

Sullivan segir að blaðamaður NYT hafi af vinsemd gefið sér færi á að biðjast afsökunar og afneita því sem birtist í The New Republic árið 1994. Svar Sullivans var á þann veg að enn hefði ekki fengist svar við áhrifum erfða á greind ólíkra hópa manna en fyrirsögn svipmyndarinnar orðaði blaðamaðurinn á þennan veg: Ég ætla ekki að hætta að lesa Andrew Sullivan en ég get ekki varið hann. Bendir Sullivan á að í þessum orðum felist að blaðamaður sem skrifi um fjölmiðla í bandaríska blaðið sem kallar sig paper of record geti ekki varið rithöfund vegna þess að hann neiti að segja eitthvað sem hann trúir ekki. Blaðamaðurinn segi þetta samhliða því sem hann lýsi Sullivan sem „einum áhrifamesta blaðamanni síðustu þriggja áratuga“. Til að sýna sanngirni tekur Sullivan fram að blaðamaðurinn hefði ekki átt neina framtíð á NYT ef hann hefði ekki kallað sig „óverjandi rasista“. Þögn hans um það hefði verið jafn óviðunandi að mati woke yfirmanna hans og að Sullivan vildi ekki afneita efninu frá 1994 í The New Republic. Nú sé staðan í Bandaríkjunum þessi: Blaðamaður óttast að verða afskrifaður ef hann afskrifar ekki einhvern annan. Lokorð Sullivans eru: This is America returning to its roots. As in Salem – þarna hverfa Bandaríkjamenn aftur til róta sinna. Eins og í Salem. – Með því að nefna Salem vísar Sullivan til bæjar skammt fyrir norðan Boston sem er frægur fyrir galdrafár árið 1692.

Leikrit Arthurs Millers Í deiglunni snýst um atburðina í Salem. Hann skrifaði það árið 1953 til að mótmæla málflutningi og hræðsluáróðri Josephs McCarthys vegna kommúnista.